Erlent

Stefna á leit í dag og gefa sér tvo mánuði til aðgerða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ali Sadpara og Johns Snorra Sigurjónssonar er enn saknað. 
Ali Sadpara og Johns Snorra Sigurjónssonar er enn saknað.  Facebook

Stefnt er að því að hefja leit að John Snorra Sigurjónssyni og samferðamönnum hans, sem saknað hefur verið á fjallinu K2 síðan á föstudag, á ný í dag. Vonast er til að hægt verði að senda herflugvél útbúna hitamyndavélum til leitarinnar. Ferðamálaráðherra á svæðinu segir að yfirvöld muni gefa sér tvo mánuði til leitarstarfs.

Pakistanski miðillinn Dawn greinir frá stöðu leitarinnar á vef sínum í dag. Ekkert hefur spurst til Johns Snorra og félaga hans, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, í rúma fimm sólarhringa. Ekki var unnt að leita að þremenningunum í gær og fyrradag vegna veðurs en nú er útlit fyrir að veðurgluggi hafi opnast.

Dawn hefur eftir tilkynningu frá samskiptadeild pakistanska hersins að stefnt sé að því að C-130 flugvél pakistanska hersins verði send til leitarinnar í dag. Flugvélin er sögð komast hærra en þyrlurnar sem notaðar hafa verið við leit fram að þessu. Flugvélin verði útbúin hitamyndavélum. 

Þá séu fjórir göngumenn vanir háfjallaklifri tilbúnir að leggja af stað upp fjallið ef myndir úr hitamyndavélum varpi ljósi á staðsetningu Johns Snorra og félaga. Tveir göngumannanna, Sadiq Sadpara og Ali Muhammad Sadpara, hafi þegar lokið hæðaraðlögun og geti farið tafarlaust upp fyrir grunnbúðir ef nauðsyn krefur.

Sextíu dagar til leitar

Raja Nasir Ali Khan, ferðamálaráðherra á svæðinu, sagði á Twitter í gær að stjórnvöld hefðu ákveðið á fundi í gær að gefa sér sextíu daga til leitarstarfs á K2. Þá verði aðeins lagt í björgunaraðgerðir upp fjallið þegar nákvæm staðsetning þremenninganna liggi fyrir.

Stjórnvöld í Pakistan bönnuðu í gær ferðir upp á K2 út vetrartímabilið. Allir göngumenn sem þá voru staddir í búðum á fjallinu héldu í kjölfarið heim. 


Tengdar fréttir

Banna ferðir á K2 út veturinn

Stjórnvöld í Pakistan hafa bannað allar frekari ferðir á fjallið K2 út veturinn. Þriggja fjallgöngumanna, Johns Snorra Sigurjónssonar og félaga hans, er saknað á fjallinu og gripið er til bannsins vegna þess. Það tekur þegar gildi.

Rifja upp dýr­mætar sam­veru­stundir síðustu vikna á K2

Leit verður haldið áfram að John Snorra Sigurjónssyni og samferðamönnum hans á K2 í dag ef veður á svæðinu leyfir. Ekki hefur verið unnt að leita síðan á mánudag vegna veðurs og veðurspá er áfram slæm út vikuna. Félagar þremenninganna hafa rifjað upp dýrmætar minningar af vinum sínum á samfélagsmiðlum síðustu daga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×