Enski boltinn

Líktu Gylfa við Bergkamp í geggjaðri stoðsendingu hans i sigurmarkinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Tottenham í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti Tottenham í ensku bikarkeppninni í gærkvöldi. AP/Martin Rickett

Gylfi Þór Sigurðsson átti magnað kvöld í gær á móti sínum gömlu félögum þegar Everton komst áfram í átta liða úrslit enska bikarsins.

Gylfi fær frábæra dóma fyrir frammistöðu sína og ekki að ástæðulausu enda kom hann með beinum hætti að fjórum af fimm mörkum liðsins.

Gylfi skoraði eitt mark úr víti en gaf síðan stoðsendingar á þá Dominic Calvert-Lewin, Richarlison og Bernard.

Markið hans Bernard kom á sjöundu mínútu í framlengingunni og reyndist á endanum vera sigurmarkið í leiknum.

Markið kom eftir samspil Bernard og Gylfa en það voru taktar Gylfa með boltann fyrir utan vítateig Tottenham sem vöktu sérstaka hrifningu þeirra sem á horfðu.

Í textalýsingu Sky Sports frá leiknum þá er Gylfa líkt við Dennis Bergkamp í þessari geggjuðu stoðsendingu hans.

Gylfi bjó sér þá til tíma og pláss fyrir utan teiginn með laglegum snúningi og lyfti síðan boltanum inn fyrir vörn Tottenham á Bernard sem skoraði.

Dennis Bergkamp átti magnaðan feril í fótboltanum og átti þátt í mörgum mörkum þar sem hann sýndi einstaka tækni og útsjónarsemi með boltann. Það er því heiður fyrir okkar mann að vera líkt við hollenska snillinginn.

Hér fyrir neðan má sjá lýsingu Sky Sports á markinu en fyrir ofan má síðan sjá markið sjálft.

Skjámynd/Sky Sports



Fleiri fréttir

Sjá meira


×