Fótbolti

Tveir hjúkrunarfræðingar og sálfræðingur í hóp sakborninga í máli Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona var maðurinn á bak við heimsmeistaratitul Argentínu árið 1986 þar sem hann var með fimm mörk og fimm stoðendingar í úrslitakeppninni.
Diego Maradona var maðurinn á bak við heimsmeistaratitul Argentínu árið 1986 þar sem hann var með fimm mörk og fimm stoðendingar í úrslitakeppninni. Getty/ Jean-Yves Ruszniewski

Rannsókn á láti argentínsku knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona er enn í fullum gangi og nú hafa fleiri bæst í hóp þeirra sem eru grunaðir að bera ábyrgð á því hversu illa fór fyrir hinum sextuga Maradona.

Diego Maradona lést 25. nóvember síðastliðinn aðeins tveimur vikum eftir að hafa verið útskrifaður af spítala eftir vel heppnaða heilaaðgerð.

Saksóknari í Argentínu er að rannsaka það hvort um vanrækslu eða gáleysi hafi verið að ræða í meðferð Maradona eftir að hann yfirgaf sjúkrahúsið.

Leopoldo Luque, læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina, og sjúkraþjálfarinn Agustina Cosachov, sem var hjá Maradona þegar hann lést, hafa báðir sætt rannsókn en meðal annars var leitað inn á heimili þeirra og skrifstofu.

Sálfræðingurinn Carlos Diaz, sem meðhöndlaði Maradona síðustu mánuðina fyrir andlátið og hjúkrunarfræðingarnir Dahiana Gisela Madrid og Ricardo Almiron eru núna líka komin í hóp þeirra sem eru grunuð um að bera ábyrgð á dauða Maradona.

Lögfræðingur Maradona, Matias Morla, krafist þess stuttu eftir andlátið að það færi fram full rannsókn á láti Maradona. Elstu dætur Maradona, Dalma og Giannina, segja að Morla og Leopoldo Luque læknir beri ábyrgðina en Morla réð Luque til starfa.

Argentínskir fjölmiðlar hafa fjallað um það að Maradona hafi ekki fengið þá meðferð sem hann þurfti á að halda eftir aðgerðina. Þess í stað hafi fólkið sem átti að sjá um hann fært honum áfengi og marijúana.

Maradona var þó hvorki með áfengi eða eiturlyf í líkamanum þegar hann lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×