Innlent

Snjór yfir öllu á höfuðborgarsvæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin núna í morgun á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi mynd er tekin núna í morgun á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa í vetur lítið fengið af snjó enda er veturinn sá snjóléttasti í hundrað ár í Reykjavík. Í morgun vakna höfuðborgarbúar hins vegar við alhvíta jörð eftir snjókomu í nótt.

Byrjað að ryðja götur, göngu- og hjólastíga en eins og gjarnan þegar það hefur snjóað má búast við því að umferðin gangi eitthvað hægar en venjulega. Því er ekki úr vegi fyrir ökumenn og aðra vegfarendur en að fara varlega og flýta sér hægt.

Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé búið að mæla hversu mikill jafnfallinn snjórinn er en þó sé líklegt að hann sé rúmir fimm sentimetrar miðað við fimm millimetra úrkomu í Reykjavík.

Hann segir að einhverjar líkur séu á smá snjókomu á höfuðborgarsvæðinu fyrir hádegi en síðan ætti að stytta upp og birta til. Það sé hins vegar hæpið að snjóinn taki allan upp; hann ætti að „lifa af“ daginn í dag og morgundaginn.

Síðan er ekki nein snjókoma í kortunum á suðvesturhorninu, mögulega einhver slydduél eða él seinnipartinn á morgun, en síðan er spáð rigningu.

Veðurhorfur á landinu:

Suðlæg átt, 5-13 m/s en norðaustanátt á Vestfjörðum. Snjókoma með köflum, einkum vestan- og norðvestantil. Frost 0 til 10 stig en hiti um og yfir frostmarki syðst.

Suðaustan 5-13 á morgun, hvassast syðst. Él eða slydduél sunnanlands, snjókoma framundir hádegi á Vestfjörðum en annars skýjað með köflum og úrkomulítið. Hlýnar heldur.

Á fimmtudag:

Suðaustan 8-13 m/s, él og hiti um og yfir frostmarki sunnan- og vestanlands en hægari vindur, þurrt og frost 0 til 5 stig norðaustantil.

Á föstudag:

Suðaustan 10-18 m/s, hvassast syðst. Dálítil él sunnantil og hiti 0 til 4 stig. Heldur hægari vindur, bjart með köflum og vægt frost um norðanvert landið.

Á laugardag:

Ákveðin suðaustanátt með slyddu og síðar rigningu en úrkomulítið á Norðurlandi. Hlýnandi veður.

Á sunnudag:

Suðaustanátt og rigning en áfram úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 3 til 8 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×