Erlent

Hálfu ári seinna er fátt um svör og rannsókn strand á skeri stjórnmála

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengingin varð í vöruskemmu þar sem tæp þrjú þúsund tonn ef eldfimum efnum voru geymt, auk flugelda.
Sprengingin varð í vöruskemmu þar sem tæp þrjú þúsund tonn ef eldfimum efnum voru geymt, auk flugelda. EPA-EFE/WAEL HAMZEH

Yfirvöld Frakklands gagnrýna ráðamenn í Líbanon harðlega vegna þess að enn hafi enginn verið dreginn til ábyrgðar hálfu ári eftir að höfnin í Beirút sprakk í loft upp. Rúmlega tvö hundruð manns dóu, rúmlega sex þúsund slösuðust og þúsundir heimila skemmdust.

Sprengingin var ein stærsta sprenging heimsins, séu kjarnorkusprengingar ekki taldar með. Hún varð þegar 2.750 tonn af ammóníum nítrati, sem notað er í áburð og sprengiefni, sprungu í vöruskemmu á hafnarsvæði Beirút.

Efnin höfðu þá verið í vöruskemmuni frá árinu 2014 og höfðu embættismenn ítrekað verið varaðir við hættunni frá þeim. Það var síðast gert í bréfi til Diab og Michel Aoun, forseta, rúmum tveimur vikum fyrir sprenginguna.

Sjá einnig: Gríðarstór sprenging í Beirút

Hér má sjá myndband Sky News þar sem fjölmörg myndbönd af sprengingunni eru sýnd.

Rannsókn yfirvalda á sprengingunni hefur engum árangri skilað enn. AFP hafði eftir heimildarmönnum sínum í desember að til stæði að ákæra Hassan Diab, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, og þrjá aðra fyrrverandi ráðherra, en ekkert hefur orðið af því.

Diab sagði af sér eftrir sprenginguna í ágúst. Saad Hariri sem hafði sagt af sér tæplega ári áður vegna umfangsmikilla mótmæla í Líbanon var þá gerður svo gerður að forsætisráðherra í þriðja sinn í október. Honum hefur þó ekki enn tekist að mynda ríkisstjórn.

Sjá einnig: Forsætisráðherra í þriðja sinn og heitir umbótum

Nú segir fréttaveitan að sjónir rannsakenda hafi beinst að rúmlega tuttugu mönnum sem hafi verið handteknir. Stjórnmálamenn í Líbanon hafi staðið í vegi rannsakenda.

„Sex mánuðum eftir sprenginguna, er ósásættanlegt að íbúar Líbanon séu enn að bíða eftir svörum frá leiðtogum sínum.“

Þetta sagði Anne Grillo, sendiherra Frakklands í Líbanon, í yfirlýsingu í dag samkvæmt frétt AFP.

Líbanon var frönsk nýlenda fyrir seinni heimsstyrjöldina og síðan þá hafa tengsl ríkjanna verið mjög náin. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, ferðaðist tvisvar til Beirút í kjölfar sprenginarinnar og kallaði eftir umfangsmiklum umbótum á stjórnmálakerfi landsins.

Þau áköll féllu ekki í kramið í Líbanon. Ráðandi fylkingar landsins hétu breytingum en hafa ekki staðið við það.

Íbúar Líbanon hafa staðið frammi fyrir margskonar krísur á undanförnum árum. Þær má að miklu leiti rekja til spillingar og vanstjórnar.

Skipið Orient Queen er enn á hliðinni við bryggju í Beirút. Sex mánuðum eftir að skipið sökk í sprengingunni.EPA-EFE/WAEL HAMZEH

Efnin sem sprungu voru flutt til Beirút um borð í skipinu Rhosus árið 2013. Skipið var í eigu rússneskra aðila en skráð í Moldavíu. Til stóð að sigla því til Mósambík en skipstjórinn segist hafa fengið skipun um að fara til Beirút og taka þar aukafarm.

Embættismenn í Beirút kyrrsettu þó skipið og skipuðu áhöfninni að vera áfram um borð. Að endingu var farmurinn tekinn í land og áhöfninni sleppt árið 2014. Eigendur skipsins yfirgáfu það.

Skipið sjálft var að endanum fært um nokkur hundruð metra. Árið 2018 sökk það við bryggju í Beirút, þar sem það liggur enn. Skammt frá vöruskemmunni sem sprakk í loft upp.


Tengdar fréttir

Ríkis­stjórnar­myndun í Líbanon farin út um þúfur

Tilraunir til þess að mynda nýja ríkisstjórn í Líbanon eru farnar út um þúfur eftir að Mustapha Adib, tilnefndur forsætisráðherra, sagðist ekki vilja leiða ríkisstjórn sem væri dæmd til þess að springa.

Líbanski herinn fær aukin völd

Líbanska þingið hefur framlengt neyðarástandið landinu sem felur meðal annars í sér að herinn fær nú aukin völd.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.