Enski boltinn

Enginn, ekki einu sinni James Milner, var fæddur þegar Liverpool lenti síðast í svona þurrkatíð á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Milner og félagar í Liverpool voru þreytulegir á móti Brighton & Hove Albion á Anfield í gærkvöldi.
James Milner og félagar í Liverpool voru þreytulegir á móti Brighton & Hove Albion á Anfield í gærkvöldi. Getty/Clive Brunskill

Eftir tvo útisigra í London í síðustu viku þá héldu stuðningsmenn Liverpool örugglega að liðið þeirra væri búið að finna taktinn á nýjan leik. Annað kom á daginn á Anfield í gær.

Liverpool tapaði þá sínum öðrum heimaleik í röð þegar liðið lá 1-0 á móti Brighton & Hove Albion í gærkvöldi. Liðið hafði tapað fyrir Burnley í heimaleiknum á undan.

Það sem meira er að Liverpool hefur nú ekki skorað í þremur heimaleikjum í röð og það hafði ekki gerst í meira en 36 ár.

Það þýðir að enginn leikmaður Liverpool í dag var fæddur þegar Liverpool liðið lenti síðast í því að skora ekki þremur heimaleikjum í röð í deildinni.

Þetta var í október 1984 en elsti leikmaður Liverpool liðsins var James Milner sem fæddist 4. janúar 1986. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp var þá bara sautján ára gamall og enn að spila með yngri flokkum TuS Ergenzingen.

Síðastur til að skora deildarmark fyrir Liverpool á Anfield var Sadio Mané sem kom liðinu í 1-0 á 12. mínútu í 1-1 jafntefli á móti West Bromwich Albion fjórum dögum fyrir gamlárskvöld.

Liverpool hefur því spilað í 348 mínútur fyrir tómum Anfield leikvanginum án þess að finna leiðina í mark andstæðinganna. Sadio Mané gat ekki spilað í gærkvöldi vegna meiðsla.

Mohamed Salah hafði skoraði tvö mörk í sigrinum á West Ham í leiknum á undan en Egyptinn hefur ekki skorað deildarmark á Anfield síðan í 2-1 sigri á Tottenham 16. desember síðastliðinn.

Tímabilið 1984 til 1985 þá var Joe Fagan knattspyrnustjóri félagsins og Liverpool náði ekki að vinna titili. Liðið endaði hins vegar í öðru sæti í deildinni og í Evrópukeppni meistaraliða og komst í undanúrslit enska bikarsins.

Markalausu heimaleikirnir frá 29. spetember til 20. október 1984 voru á móti Sheffield Wednesday (0–2), West Bromwich Albion (0-0) og Everton (0-1). Ian Rush endaði biðina eftir marki þegar hann skoraði á móti Southampton 10. nóvember.

Þrátt fyrir mjög góðan endi á tímabilinu þá tókst Liverpool ekki að vinna upp forskot Everton sem vann þarna deildina með þrettán stiga mun.

Joe Fagan hætti sem stjóri Liverpool eftir leiktíðina og Kenny Dalglish tók við sem spilandi knattspyrnustjóri. Liverpool vann tvöfalt á hans fyrsta tímabili 1985-86.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×