Erlent

Komin „yfir toppinn“ en eiga langt í land

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Chris Whitty, landlæknir Englands, og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Chris Whitty, landlæknir Englands, og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Toby Melville - WPA Pool/Getty

Bretland er nú „komið yfir toppinn“ á þeirri bylgju kórónuveirunnar sem ríður yfir ríkið, samkvæmt landlækni Englands.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir landlækninum, Chris Whitty, að tölur yfir spítalainnlagnir, fólk sem greinist daglega með veiruna og dauðsföll væru á niðurleið. Það þýddi þó ekki að tölurnar gætu ekki farið hækkandi aftur.

Á fréttamannafundi í dag sagði Whitty að þrátt fyrir að tölurnar hefðu lækkað tilfinnanlega þá væru þær enn hærri en þegar mest lét í fyrstu bylgju faraldursins í apríl 2020.

„Þetta er því enn stórt vandamál. En þetta er vandamál sem er á réttri leið,“ sagði Whitty. Hann bætti því við að ef tölur yfir smitaða færu aftur hækkandi þá kæmist breska heilbrigðiskerfið „aftur í vandræði á ógnarhraða“ en mikið hefur mætt á kerfinu þegar faraldurinn hefur látið finna hvað mest fyrir sér í Bretlandi.

Í dag, miðvikudag, létust 1.322 manns sem greinst höfðu með Covid-19 á síðustu 28 dögum í Bretlandi. Alls hafa tæplega 110 þúsund manns látist á innan við 28 dögum eftir Covid-19 greiningu. Þá greindust 19.202 með kórónuveiruna í Bretlandi í dag.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, talaði einnig á fundinum og lofsamaði það „tröllvaxna átak“ að hafa þegar bólusett tíu prósent bresku þjóðarinnar við Covid-19, þar af 90 prósent þeirra sem eru 75 ára eða eldri.

„Þó að í dag séu á lofti teikn vonar, þar sem Covid-sjúklingum á spítölum fer fækkandi frá upphafi þessarar bylgju, er tíðni smita enn skelfilega há,“ sagði Johnson og bætti við að um 32 þúsund manns lægju nú inni á spítala með Covid-19.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.