Erlent

Vaknaður eftir tíu mánaða dá og hefur ekki hugmynd um heimsfaraldurinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að hafa smitast tvisvar af kórónuveirunni hefur Joseph Flavill ekki hugmynd um heimsfaraldur kórónuveiru.
Þrátt fyrir að hafa smitast tvisvar af kórónuveirunni hefur Joseph Flavill ekki hugmynd um heimsfaraldur kórónuveiru. GoFundMe

Táningur sem lenti í skelfilegu bílslysi í fyrra hefur legið í dái í tíu mánuði og er þessa dagana að ranka við sér. Aðstandendur drengsins Joseph Flavill segja að hann hafi ekki nokkra einustu hugmynd um að heimsbyggðin hafi meira og minna verið í klóm heimsfaraldurs kórónuveiru í rúmt ár þrátt fyrir að hann hafi sjálfur tvívegis greinst með COVID-19 sjúkdóminn á meðan hann var í dái.

Hinn breski Flavill hlaut heilaskaða þegar ekið var á hann þann 1. mars á síðasta ári en það var ekki fyrr en um miðjan mars sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin flokkaði nýju kórónuveiruna sem heimsfaraldur.

„Ég veit bara ekki hvar ég að byrja. Ef einhver hefði sagt mér fyrir ári að þetta myndi allt saman eiga sér stað hefði ég ekki trúað því. Ég hef ekki hugmynd hvernig ég get komið Joseph í skilning um það sem við höfum öll gengið í gegnum síðasta árið,“ sagði Sally Flavill Smith, frænka drengsins, í samtali við Guardian.

Flavill hefur tekið miklum framförum að undanförnu og getur nú brugðist við setningum annarra og farið eftir fyrirmælum líkt og að snerta vinstra eyrað, hreyfa fæturna og þá getur hann einnig svarað „já“ og „nei“ með því að depla augunum.

„Við eigum enn langt í land en þessi fyrstu skref sem hann hefur tekið á síðustu vikum hafa verið gjörsamlega ótrúleg,“ sagði frænka hans sem brast í grát þegar hann gaf frá sér fyrsta brosið eftir dáið.

Vegna sóttvarnatakmarkana í Bretlandi hefur fjölskylda drengsins ekki mátt heimsækja hann á sjúkrahúsið en hún hefur mikið notað myndsímtal til að spjalla við hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×