Fótbolti

Neymar: Ég mun aldrei hætta að fara í partý

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar marki með Paris Saint Germain á þessu tímabili.
Neymar fagnar marki með Paris Saint Germain á þessu tímabili. Getty/ John Berry

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar segist ekki vera eins óþroskaður og margir gagnrýnendur hans hafi ýjað að.

Neymar er orðinn þekktur fyrir veisluhöld sín þar sem fræga fólkið er jafnan meðal gesta. Hann segir það að vilja fara í partý sé ekki tákn um að hann sé ekki búinn að fullorðnast.

„Segðu mér, hver hefur ekki gaman að fara í partý? Allir vilja hafa gaman,“ sagði Neymar í viðtali við ESPN.

„Ég veit hvenær ég get farið, hvenær ég geta haldið partý og hvenær ég get það ekki,“ sagði Neymar.

„Það er ekki þannig eins og fólk heldur að ég sé óþroskaður og að ég viti ekki hvað ég sé að gera,“ sagði Neymar.

Neymar er nú orðinn 28 ára gamall. Hann fékk síðast gagnrýni á sig fyrir að halda vikulangt áramótapartý fyrir 150 manns í stórhýsi hans í Rio de Janeiro í Brasilíu.

„Ég er búinn að vera í fótbolta í mörg ár. Ef þú hugsar hundrað prósent um fótbolta þá endar þú á því að springa. Þetta er mín leið til að slappa af og róa mig niður. Ég mun aldrei hætta því,“ sagði Neymar.

Neymar hefur skorað þrettán mörk í sextán leikjum í öllum keppnum með Paris Saint Germain á þessu tímabili þar af sex mörk í fimm leikjum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×