Innlent

Sextugur karlmaður í gæsluvarðhald vegna skotárásarinnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Vísir/Sigurjón

Karlmaður um sextugt var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald, eða til 1. febrúar, vegna gruns um aðild að skotárásinni á bíl borgarstjóra um síðastliðna helgi.

Tveir karlmenn hafa réttarstöðu sakbornings í málinu en annar þeirra hefur verið látinn laus. Talsvert magn af skotvopnum fannst á heimili hans. 

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rannsókn málsins miði vel. Fréttastofa hefur ekki náð tali af lögreglu í dag. 

Tilkynninguna frá lögreglu má sjá hér fyrir neðan: 

Karlmaður um sextugt var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar á dögunum. Rannsókn málsins miðar vel, en annar karlmaður hefur einnig réttarstöðu sakbornings í málinu.

Í fyrri tilkynningu um málið í dag var ranglega sagt að maðurinn í haldi lögreglu, sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, væri á fimmtugsaldri og leiðréttist það hér með.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×