Erlent

Lög­reglu­maðurinn sem lést í á­rásinni verður lagður til hinstu hvílu í þing­húsinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Brian Sicknick, lögreglumaður sem lést í árásinni á bandaríska þinghúsið, verður lagður til hinstu hvílu í þinghúsinu.
Brian Sicknick, lögreglumaður sem lést í árásinni á bandaríska þinghúsið, verður lagður til hinstu hvílu í þinghúsinu. Vísir/Getty

Brian Sicknick, lögreglumaðurinn sem lést í árásinni sem gerð var á bandaríska þinghúsið í byrjun janúar, verður lagður til hinstu hvílu í bandaríska þinghúsinu.

Það er talinn mikill virðingarvottur að vera borinn til grafar í þinghúsinu, en meðal þeirra sem þar liggja eru Abraham Lincoln fyrrverandi forseti og Ruth Bader Ginsburg hæstaréttardómari.

Sicknick var 42 ára gamall þegar hann lést en hann særðist í átökum við árásarmennina þann 6. janúar. Hann lést daginn eftir árásina. Hann var einn fimm einstaklinga sem létust í árásinni.

„Bandaríkjaþing er sameinað í sorginni og þakklæti vegna starfa og fórna Brians Sicknick,“ sögðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, og Chuck Schumer, leiðtogi meirihluta öldungadeildarinnar.

„Hetjudáð Sicknicks og lögreglu þingsins á meðan á ofbeldisfullri árás á þinghús okkar stóð bjargaði lífum, varði helgistað lýðræðis okkar og tryggði að þingið gat uppfyllt stjórnarskrárbundna skyldu sína,“ sögðu þau.

„Fórn hans minnir okkur á hverjum degi á skyldu okkar gagnvart landinu og þjóðinni.“

Sicknick verður færður í þinghúsið við hátíðlega athöfn 2. febrúar. Lögreglu þingsins og þingmönnum verður boðið að votta honum virðingu sína.

Enn er óljóst hvað það var sem orsakaði dauða Sicknicks. Samkvæmt þinglögreglunni særðist Sicknick við árásina og greint var frá því í New York Times að Sicknick hafi verið barinn með slökkvitæki í árásinni. Það hefur þó ekki fengist staðfest.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×