Innlent

Allt að 25 stiga frost við Mývatn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag.
Hitaspákort Veðurstofunnar fyrir hádegið í dag. Veðurstofa Íslands

Í nótt hefur verið hægur vindur á landinu og víða léttskýjað en við slíkar aðstæður um miðjan vetur sjást oft háar frosttölur.

Sú var einmitt raunin í nótt eins og sagt er frá í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands þennan morguninn:

„Það er gjarnan mikill breytileiki í því hvernig frostið nær sér á strik. Oft verður kaldast í lægðum í landslagi, þar situr kaldasta loftið sem fastast og kólnar meira og meira af völdum útgeislunar.

Í nótt var kaldast við Mývatn (veðurstöðin stendur á Neslandatanga), þar var frostið á bilinu 22-25 stig í logni.

Um 11 km í loftlínu í vestur frá Mývatnsstöðinni stendur veðurstöðin Mývatnsheiði. Þar var frostið í nótt lengst af 16-17 stig og vindhraði um 4 m/s (gola skv. gamla vindstigakvarðanum).

Veðurstöðin á Mývatnsheiði stendur á heiðarbungunni og þar á kalda loftið erfitt með að standa kyrrt og því eru ekki kjöraðstæður þar fyrir neðsta lagið að kólna af völdum útgeislunar.“

Þá var 22 stiga frost á flugvellinum á Akureyri klukkan þrjú í nótt en á sama tíma mældist 15 stiga frost við lögreglustöðina inni í bænum.

„Næstu daga er útlit fyrir tiltölulega rólegt veður á landinu og áfram verður kalt,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurhorfur næstu daga:

Hægviðri og víða léttskýjað. Norðlæg eða breytileg átt 3-10 síðdegis og dálítil snjómugga á köflum, en úrkomulaust sunnanlands.

Norðaustlæg átt 5-13 á morgun og lítilsháttar él á víð og dreif, en þurrt vestanlands.

Frost víða á bilinu 3 til 13 stig, en kaldara á stöku stað.

Á laugardag:

Norðlæg átt 3-10 m/s og dálítil él, en léttskýjað suðvestan- og vestanlands. Frost 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt, en austan 8-13 með suðurströndinni. Víða bjartviðri og frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum á Norður- og Austurlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×