Innlent

Ákærð vegna banaslyss á Þingvallavegi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í júlí 2018.
Frá vettvangi slyssins í júlí 2018. Vísir/Jóhann K.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út ákæru á hendur 33 ára konu vegna banaslyss á Þingvallavegi í Mosfellsbæ í júlí 2018. Kona á níræðisaldri lést í slysinu.

Í ákærunni segir að konan hafi ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða þegar hún tók fram úr annarri bifreið sem ekið var sömu leið, án nægilegrar aðgæslu. Við framúraksturinn hafi hún farið yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að bíllinn hafnaði á öðrum bíl sem hafði beygt af Þingvallavegi og inn Æsustaðaveg í suður.

Aksturshraðinn er ekki tilgreindur í ákæru en í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að konan hafi ekið allt að 50 kílómetrum yfir hámarkshraða þegar slysið varð, eða á um 102-124 kílómetra hraða. Hámarkshraði á veginum var 70 km/klst. Hraði hins bílsins var um 30-50 km/klst. 

Ökumaður bílsins hlaut alvarlega áverka, meðal annars brot á hálshrygg, rifbrot, mjaðmagrindarbrot, spjaldbeinsbrot, herðablaðsbrot og viðbeinsbrot. En farþeginn lést.

Konan er ákærð fyrir brot á hegningar- og umferðarlögum. Farið er fram á að hún verði dæmd til refsingar og fjölskylda hinnar látnu fer fram á samtals tíu milljónir króna í miskabætur.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar lýsa vitni „glæfralegum framúrakstri“ og mat nefndin það sem svo að orsakir slyssins megi rekja til þess að konan hafi ekið fram úr bílaröð án þess að ganga úr skugga um mögulega umferð út af veginum. 

Íbúar í Mosfellsbæ boðuðu til íbúafundar í kjölfar slyssins en þeir hafa lengi barist fyrir bættu umferðaröryggi á svæðinu. Það var ekki í fyrsta sinn sem áhyggjufullir íbúar komu saman vegna umferðaröryggis því þeir héldu fyrst íbúafund árið 2016 þar sem þeir kröfðust úrbóta.  Þeir sögðust upplifa það sem svo að ekki sé hlustað á þá og þeirra áhyggjur og þá þori íbúar ekki að hafa hesta á beit úti við því þá muni ferðamenn stoppa úti í vegakanti til að taka myndir með tilheyrandi hættu.

Í framhaldinu var gripið til endurbóta á yfirborðsmerkingum á veginum, þar sem framúrakstur var bannaður með óbrotinni miðlínu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.