Íslenski boltinn

Þorsteinn ráðinn landsliðsþjálfari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson vann fimm stóra titla sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson vann fimm stóra titla sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks. vísir/hulda margrét

Þorsteinn Halldórsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.

Þorsteinn náði frábærum árangri með kvennalið Breiðabliks sem hann þjálfaði á árunum 2014-21. Hann gerði Blika þrisvar sinnum að Íslandsmeisturum og tvisvar sinnum að bikarmeisturum.

Þorsteinn, sem er 52 ára, þjálfaði áður hjá KR, Þrótti R. og Haukum. Hann lék sjálfur yfir tvö hundruð leiki í meistaraflokki.

Þorsteinn tekur við kvennalandsliðinu af Jóni Þór Haukssyni sem hætti í síðasta mánuði.

Fyrsta verkefni íslenska liðsins undir stjórn Þorsteins verður fjögurra þjóða mót í Frakklandi í næsta mánuði. Hann stýrir Íslandi í fyrsta sinn gegn Frakklandi 17. febrúar.

Ásmundur Haraldsson verður aðstoðarmaður Þorsteins. Hann var áður aðstoðarlandsliðsþjálfari á árunum 2013-18.

Undankeppni HM 2023 hefst í haust en dregið verður í riðla í henni í vor. Sumarið 2022 fer íslenska liðið svo á EM í Englandi. Mótið átti að fara fram í sumar en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×