Í dag er spáð austlægri átt, golu eða kalda og víða léttskýjuðu veðri. Þó verður að mestu skýjað austanlands og sums staðar lítilsháttar él á þeim slóðum.
„Frost frá 1 stigi syðst á landinu, allt niður í 15 stig eða þar um kring í innsveitum á Norður- og Austurlandi. Algengar frosttölur á bilinu 4 til 8 stig.
Litlar breytingar heilt yfir til morguns, en snjóað gæti við norðurströndina síðdegis, úr éljabökkum sem verða þar á sveimi,“ segir í hugleiðingunum.
Veðurhorfur á landinu:
Austlæg eða breytileg átt 3-10 m/s í dag og víða léttskýjað, en skýjað að mestu austanlands og sums staðar dálítil él. Frost 1 til 15 stig, kaldast í innsveitum á Norður- og Austurlandi.
Áfram hægur vindur á morgun með þurru og köldu veðri, en norðaustan 5-10 með norðurströndinni seinnipartinn og líkur á éljum þar.
Á föstudag:
Hæg breytileg átt og víða bjartviðri, en norðaustan 5-10 m/s með norðurströndinni og líkur á éljum þar. Frost 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Á laugardag:
Norðlæg átt 3-10. Lítilsháttar él á Norður- og Austurlandi, en þurrt og bjart sunnan- og vestanlands. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag og mánudag:
Austlæg átt 3-8, en 8-13 með suðurströndinni. Víða bjartviðri og frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.