Erlent

Afar hæpið að Trump verði sakfelldur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump er ekki lengur forseti en hefur samt verið ákærður fyrir embættisbrot. Repúblikanar í öldungadeildinni telja það ólöglegt.
Donald Trump er ekki lengur forseti en hefur samt verið ákærður fyrir embættisbrot. Repúblikanar í öldungadeildinni telja það ólöglegt. AP/Luis M. Alvarez

Ólíklegt er að öldungadeild bandaríska þingsins sakfelli Donald Trump, fyrrverandi forseta, fyrir embættisbrot. Langflestir Repúblikanar greiddu atkvæði með frávísunartillögu í gærkvöldi.

Trump var ákærður fyrir tveimur vikum fyrir að hafa hvatt til uppreisnar í aðdraganda árásar stuðningsmanna hans á þinghúsið. 

Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni og nutu stuðnings tíu Repúblikana í atkvæðagreiðslunni um ákæruna. Vegna alvarleika árásarinnar þótti sakfelling forsetans fyrrverandi alls ekki útilokuð.

En Skjótt skipast veður í lofti. Fyrir um tveimur vikum sagði The New York Times frá því að tuttugu Repúblikanar væru opnir fyrir því að sakfella Trump. 

Einungis fimm Repúblikanar greiddu atkvæði gegn frávísun ákærunnar í gær. Því er afar hæpið að Trump verði sakfelldur, enda þyrfti til þess alla þingmenn Demókrata og sautján Repúblikana.

Sýndarréttarhöld?

Rand Paul, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, var foxillur þegar frávísunartillaga hans var felld.

„Þetta er falskt. Algjör harmleikur. Svartur blettur í sögu landsins. Ég hvet kollega mína til þess að endurskoða þessi sýndarréttarhöld og ræða í staðinn um mikilvægu málin,“ sagði Paul.

Segja ákæruna ekki standast stjórnarskrá

En hvað veldur því að Repúblikanar hafa nú að mestu tekið höndum saman gegn ákærunni?

Þingmennirnir sögðust í gær að ferlið stæðist ekki stjórnarskrá þar sem Trump er ekki lengur forseti. Því er CRS, hugveita þingsins sjálfs, ósammála og telur spurningunni í raun enn ósvarað. 

Samkvæmt CNN vilja fæstir Repúblikanar svíkja lit, jafnvel þeir sem gagnrýndu forsetann harðlega eftir árásina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.