Innlent

Tollurinn fái víðtækari heimildir til þess að leita í farangri

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Í greinargerð frumvarpsins segir að reiðufé úr brotastarfsemi sé flutt úr landi og að erfitt hafi verið fyrir tollgæslu að tryggja að eigandi sé viðstaddur leit.
Í greinargerð frumvarpsins segir að reiðufé úr brotastarfsemi sé flutt úr landi og að erfitt hafi verið fyrir tollgæslu að tryggja að eigandi sé viðstaddur leit. vísir/Vilhelm

Drög að frumvarpi til breytinga á tollalögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Tollyfirvöldum eru þar veittar auknar heimildir til þess að leita í innrituðum farangri, án þess að eigandinn sé viðstaddur. 

Í greinargerð segir að með ákvæðinu sé  brugðist við ábendingum FATF, alþjóðlegs starfshóps sem vinnur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, varðandi skort á eftirliti með flutningi reiðufjár til og frá landinu.

Samkvæmt núgildandi tollalögum er tollgæslu heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til síðari skoðunar. Gefa þarf eiganda kost á því að vera viðstaddur skoðunina. 

Í áhættumati ríkislögreglustjóra frá apríl 2019 segir að Íslendingar búi ekki yfir nægum úrræðum til að hafa eftirlit með smygli á reiðufé hjá farþegum, í farangri og vörusendingum. 

Í greinargerð frumvarpsins segir að lögreglu og tollgæslu hafi borist ábendingar um að þessar flutningsleiðir séu notaðar til að flytja reiðufé úr landi. Meðal annars reiðufé sem grunur leikur á að komi frá refsiverði brotastarfsemi, líkt og fíkniefnasölu og vændi.

Þá segir að erfitt hafi reynst að koma því við að eigandi farangurs sé viðstaddur leit í innrituðum farangri. Tollgæslu hafi því stundum verið nær ómögulegt að framkvæma leitina.

Samkvæmt frumvarpinu ber þó að tilkynna eiganda farangurs að leit hafi farið fram.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.