Fótbolti

Kolbeinn búinn að finna sér nýtt lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen með 26 mörk.
Kolbeinn Sigþórsson er markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen með 26 mörk. vísir/vilhelm

Kolbeinn Sigþórsson hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið IFK Gautaborg til eins árs.

Kolbeinn var kynntur til leiks hjá Gautaborg með myndbandi á Twitter-síðu félagsins.

Kolbeinn hefur leikið með AIK undanfarin tvö ár en fór frá félaginu undir lok síðasta árs. Hann skoraði aðeins fjögur mörk í 44 leikjum með AIK.

„Þegar ég heyrði af áhuga Gautaborgar hljómaði það strax vel. Það er spennandi að vera hluti af þessu félagi. Vonandi kem ég inn með jákvæða orku og þætti sem hjálpa liðinu strax,“ sagði Kolbeinn á heimasíðu Gautaborgar.

Á síðasta tímabili endaði Gautaborg í 12. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar sem telur sextán lið.

Auk þess að leika í Svíþjóð hefur Kolbeinn spilað með AZ Alkmaar og Ajax í Hollandi og Nantes í Frakklandi á atvinnumannaferlinum.

Kolbeinn hefur skorað 26 mörk í 59 landsleikjum fyrir Íslands hönd. Hann er markahæsti leikmaður landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×