Erlent

Af­hentu öldunga­deildinni á­kæruna á hendur Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þingmenn fulltrúadeildarinnar fara hér með ákæruna yfir til öldungadeildarinnar til að afhenda hana formlega.
Þingmenn fulltrúadeildarinnar fara hér með ákæruna yfir til öldungadeildarinnar til að afhenda hana formlega. Getty/Samuel Corum

Þingmenn úr fulltrúadeild Bandaríkjaþings afhentu í gær öldungadeildarþingmönnum ákæruna á hendur Donald Trump, fyrrverandi forseta, sem samþykkt var í fulltrúadeildinni fyrir tveimur vikum, á meðan Trump var enn í embætti.

Forsetinn fyrrverandi er ákærður fyrir embættisbrot vegna aðkomu hans að árásinni á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar.

Trump er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er ákærður tvisvar fyrir embættisbrot og verða réttarhöldin í öldungadeildinni yfir honum þau fyrstu sem fram fara yfir fyrrverandi forseta.

Þótt ákæran hafi nú formlega verið afhent munu réttarhöldin sjálf ekki hefjast fyrr en eftir tvær vikur.

Öldungadeildin samþykkti slíka frestun í liðinni viku þar sem hún vildi fyrst fá ráðrúm til þess að fara yfir tilnefningar Joes Biden, Bandaríkjaforseta, í ríkisstjórn auk þess sem lögfræðiteymi Trumps fær tíma til að undirbúa vörn hans.

Ólíklegt er talið að Repúblikanar í öldungadeildinni greiði atkvæði með því að dæma Trump fyrir meint brot hans.

Til þess að forsetinn fyrrverandi hljóti dóm þurfa tveir þriðju öldungadeildarþingmanna að samþykkja að dæma hann. Demókratar þurfa því að treysta á hluta þingmanna Repúblikana í þeim efnum.

Trump var fyrst ákærður fyrir embættisbrot sem forseti í lok árs 2019, eftir að hann reyndi að þvinga Vólódómír Selenskí, forseta Úkraínu, til að tilkynna að yfirvöld í Úkraínu væru að rannsaka Joe Biden, sem var þá líklegastur til að bjóða sig fram gegn Trump.

Hann var þá sýknaður af þingmönnum öldungadeildarinnar þar sem Repúblikanar voru í meirihluta. Repúblikaninn Mitt Romney, varð þá fyrsti öldungadeildarþingmaður Bandaríkjanna til að greiða atkvæði gegn forseta í sama flokki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×