Innlent

Hátt í fjór­tán þúsund skammtar af bólu­efni AstraZene­ca væntan­legir til landsins í febrúar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bóluefni AstraZeneca hefur enn ekki fengið markaðsleyfi í Evrópu.
Bóluefni AstraZeneca hefur enn ekki fengið markaðsleyfi í Evrópu. AP/Gareth Fuller

Von er á 13.800 skömmtum af bóluefni frá AstraZeneca í febrúar, ef væntingar ganga eftir um að bóluefnið fái markaðsleyfi í Evrópu á föstudaginn. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn Rúv.

Skammtarnir hefðu þó átt að vera nær 75 þúsund miðað við fréttir frá Noregi að því er Rúv greinir frá, en vandræði sem upp hafa komið við framleiðslu hjá fyrirtækinu hafa sett strik í reikninginn.

Fréttir bárust af því fyrir nokkrum dögum að töf yrði á afhendingu bóluefnis AstraZeneca innan Evrópusambandsins líkt og Vísir greindi frá á föstudaginn. Afkastageta framleiðslustöðva fyrirtækisins í Evrópu er sögð hafa verið minni en búist var við. Þá eru bráðabirgðaáætlanir um afhendingu háðar því að bóluefnið fái markaðsleyfi frá Evrópusambandinu, sem vonir standa til að gerist á næstu dögum eða vikum.

Í framhaldinu hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýst óánægju með gang mála og hefur forystufólk Evrópusambandsins sett þrýsting á stjórnendur fyrirtækisins um að standa við samninga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við fréttastofu í gær að lítið væri hægt að segja á þessari stundu um hvaða áhrif þessi töf hjá AstraZeneca hefði á Ísland enda væri erfitt að segja til um það þegar bóluefnið hafi enn ekki einu sinni fengið markaðsleyfi í Evrópu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun á morgun flytja munnlega skýrslu á Alþingi umöflun og dreifingu bóluefnis. Þingfundur hefst klukkan hálf tvö á morgun og er munnleg skýrsla ráðherra annað mál á dagskrá að loknum óundirbúnum fyrirspurnatíma samkvæmt dagskrá þingsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.