Innlent

Píratar kalla eftir nýjum frambjóðendum

Heimir Már Pétursson skrifar
Helgi Hrafn Gunnlaugsson, sem ætlar ekki að bjóða sig fram á ný, segir Pírata vera grasrótarhreyfingu. Ekki þingflokk.
Helgi Hrafn Gunnlaugsson, sem ætlar ekki að bjóða sig fram á ný, segir Pírata vera grasrótarhreyfingu. Ekki þingflokk. Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að framboðslistar Pírata í öllum kjördæmum fyrir alþingiskosninarnar í september liggi fyrir um miðjan mars. Auglýst hefur verið eftir frambjóðendum sem hafa nú rúman mánuð til að gefa kost á sér.

Stjórnmálaflokkarnir eru allir byrjaðir að undirbúa kosningarnar sem fara fram til Alþingis í haust. Miklar breytingar verða á þingflokki Pírata því helmingur þingflokksins hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram á ný. Valið verður á lista Pírata í öllum kjördæmum með prófkjöri.

Píratar hafa sex þingmenn í dag úr fjörum kjördæmum af sex. Smári McCarthy, Jón Þór Ólafsson og Helgi Hrafn Gunnarsson hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í næstu kosningum.

„Píratar eru grasrótarhreyfing. Ekki þingflokkur. Það er ríkt í okkar menningu að sitja ekki að eilífu. Við erum ekki í pólitík til að vera í pólitík heldur til að leggja okkar að mörkum,“ segir Helgi Hrafn.

Það sé fjöldi fólks innan hreyfingarinnar sem geti sinnt þingmennsku og vonandi bjóði sem flestir sig fram. Opnað var fyrir tilkynningar um framboð í prófkjöri síðast liðinn laugardag og getur fólk gert það fram til 3. mars.

„Þá tekur við rúmlega vikulangt prófkjör þar sem meðlimir flokksins geta kosið sína frambjóðendur. Eftir það liggur fyrir listi sem þá býður sig fram,“ segir Helgi Hrafn.

Framboðslistar ættu því að liggja að vera klárir um miðjan mars. Ferskar nálganir muni sjálfsagt fylgja nýju fólki og það sé mikilvægt.

„Það er gott að velta þessu vel fyrir sér. Það er að hoppa svolítið út í djúpu að gera þetta. En þetta er gefandi, þetta er mikilvægt og á köflum er þetta gaman. Alla vega þegar vel gengur,“ segir Helgi Hrafn.

Hann sé bjartsýnn á að Píratar fái þingmenn í Norðvestur og Norðausturkjördæmunum sem ekki tókst síðast.

„Það munaði ekki endilega það miklu síðast að maður taldi. En ég trúi því auðvitað að okkur gangi mjög vel,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Jón Þór sækist ekki eftir endurkjöri

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, mun ekki gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Þetta tilkynnti hann í dag samhliða því að opnað var fyrir skráningar í prófkjör Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×