Innlent

Jón Þór sækist ekki eftir endurkjöri

Sylvía Hall skrifar
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, mun ekki gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Þetta tilkynnti hann í dag samhliða því að opnað var fyrir skráningar í prófkjör Pírata.

Jón Þór birti grein á Vísi í morgun þar sem hann gerir grein fyrir ákvörðun sinni. Hann segist ekki vera nauðsynlegur í framlínuna, flokkurinn sé sjálfbær og það hafi verið markmiðið.

„Markmið mitt var alltaf tryggja sjálfbærni Pírata, og í dag er hreyfingin sterkari en nokkru sinni fyrr. Það er mikill meðbyr með flokknum, grasrótin er öflug, starfsfólkið okkar er afburðahæft, þingflokkurinn hefur aldrei verið samheldnari og þau sem bjóða sig fram aftur kunna til verka,“ skrifar Jón Þór. 

„Píratar eru því svo sannarlega sjálfbærir og þar sem ég er ekki lengur nauðsynlegur í framlínuna mun ég aftur leita í friðinn utan þingsins í stað þess að leita endurkjörs.“

Ljóst er að töluverð endurnýjun verður á meðal þingmanna Pírata, en í vetur tilkynntu þeir Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy að þeir myndu ekki bjóða sig fram aftur.

Jón Þór segir þingstarfið það skemmtilegasta sem hann hafi gert til þessa, en nú muni hann leita í friðinn utan þingsins. Meðfram þingstörfunum og að þeim loknum muni hann þó verja tíma sínum í stuðning við næstu kynslóð frambjóðenda og þingmanna.

„Eins og nýleg rannsókn Stefaníu Óskarsdóttur og Ómars H. Kristmundssonar sýnir eru þingmenn yfirleitt lengi að læra á starfið, sem er einfaldlega sóun. Sóun á tíma, peningum og starfskröftum. Og umfram allt sóun á tækifærum til að vinna að framgöngu stefnumála Pírata.“

Hann segir Pírata vera kyndilbera borgararéttinda og lýðræðisumbóta á 21. öldinni. Því hvetji hann alla þá sem brenna fyrir þeim gildum að bjóða sig fram í prófkjöri flokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.