Enski boltinn

Pep Guardiola bað sína menn um að hlaupa minna og allt fór að ganga betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola vildi að leikmennirnir sínir hættu að taka óþarfa hlaup.
Pep Guardiola vildi að leikmennirnir sínir hættu að taka óþarfa hlaup. Getty/Fred Lee

Knattspyrnustjórar pressa vanalega á það að leikmenn þeirra hlaupi sem mest inn á vellinum en einn sá besti í boltanum fór aftur á móti í þveröfuga átt á þessu tímabili.

Manchester City hélt enn á nýju marki sínu hreinu í gær í 1-0 sigri á Brighton & Hove Albion og stigin þrjú færði liðið enn nærri toppliðum deildarinnar.

Manchester City hefur nú unnið fjóra leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og sjö leiki í röð í öllum keppnum en liðið er nú komið upp í þriðja sæti deildarinnar auk þess að eiga leik inni á efstu tvö liðin.

Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola hefur fundið rétta leikskipulagið og réttu mennina til að loka vörn liðsins enda fær City liðið varla á sig mark þessa dagana.

Blaðamenn spurðu Guardiola hvað hafi verið lykillinn að betri árangri liðsins á undanförnu og svar Spánverjans kom eflaust mörgum þeirra á óvart.

„Aðalmunurinn er að við hlaupum minna. Við vorum að hlaupa of mikið í okkar leik. Þegar þú spilar fótbolta þá verður þú að ganga meira og hlaupa minna,“ sagði Pep Guardiola.

„Þú verður vissulega að hlaupa án boltans en með boltann þá verður þú að halda betur stöðu og leyfa boltanum að ferðast frekar en þú sjálfur. Við höfum bætt okkur í þessu í þessum leikum,“ sagði Guardiola.

Pep Guardiola sagði jafnframt að liðið hafi tapað á því í byrjun tímabilsins að fá alltof lítið undirbúningstímabil.

„Leikmennirnir mínir þurftu tíma til að komast í sitt besta form eftir að hafa ekki fengið neitt undirbúningstímabil,“ sagði Guardiola og nú er aftur farið að tala um Manchester City liðið sem meistaraefni.

„Það er eðlilegt eftir góð úrslit og góða frammistöðu að fólk sjái það fyrir sér á ný að við getum gert það sem við gerðum áður. Við viljum halda því áfram,“ sagði Pep Guardiola.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.