Erlent

Kim, systir Kim, segir herforingja Suður-Kóreu heimska

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Yo Jong stjórnar samskiptum einræðisríkisins Norður-Kóreu við nágranna þeirra í suðri.
Kim Yo Jong stjórnar samskiptum einræðisríkisins Norður-Kóreu við nágranna þeirra í suðri. EPA/Luong Thai Linh

Kim Yo Jong, systir Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segir herforingja í Suður-Kóreu vera vitleysinga og aðhlátursefni. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem birt var af ríkismiðli Norður-Kóreu í dag en Kim er yfir samskiptum einræðisríkisins við nágranna sína í suðri.

Tilefni þessara ummæla hennar er að herforingjaráð Suður-Kóreu sagði í dag fylgst hefði verið með skrúðgöngu herafla Norður-Kóreu í höfuðborg landsins um helgina. Kim sagði það hafa verið óþarfa enda hafi ekki verið um nokkurs konar heræfingu að ræða og engum hafi verið ógnað.

„Hafa þeir ekkert betra að gera en að fylgjast með hátíðarhöldum í norðri?“ spurði Kim í yfirlýsingu sinni, sem Yonhap fréttaveitan vitnar í.

Þá varaði hún við því að allar skuldir yrðu gerðar upp að endingu.

Fyrir þessa yfirlýsingu höfðu spurningar vaknað varðandi stöðu hennar í Norður-Kóreu þar sem útlit var fyrir að hún hefði verið lækkuð í tign í forsætisnefnd Kommúnistaflokks Norður-Kóreu. Sú ákvörðun var tekin á flokksþingi Kommúnistaflokksins sem stendur nú yfir.

Það virðist staðfest í yfirlýsingunni þar sem titill hennar er lægri í goggunarröðinni en sá sem hún var áður með. Ummæli hennar þykja þó til marks um að hún stýri enn samskiptum ríkjanna, sem hafa verið lítil sem engin eftir að hún tók við stjórn þeirra, og að hún sé enn valdamikil.

Í sumar sagði leyniþjónusta Suður-Kóreu að Kim væri orðin næstráðandi í einræðisríki bróður síns.


Tengdar fréttir

Kim Jong Un segir Banda­ríkin stærsta óvin ríkisins

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur kallað eftir því að kjarnorkuvopn ríkisins verði þróuð betur. Þá segir hann Bandaríkin stærsta óvin ríkisins. Frá þessu var greint á ríkismiðli Norður-Kóreu í dag.

Kim heitir bættum samskiptum við umheiminn

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segir nauðsynlegt að bæta samband ríkisins við umheiminn og heitir því að gera það. Þetta sagði einræðisherrann á flokksþingi Verkamannaflokks Norður-Kóreu í gær en fjórði dagur þingsins er í dag.

Kim sagði efnahagsstefnu sína vera misheppnaða

Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, opnaði nýtt flokksþing Verkamannaflokks landsins á því að viðurkenna að efnahagsstefna hans væri misheppnuð. Í opnunarræðu sinni sagði hann að þau markmið sem hann setti á flokksþingi fyrir fimm árum væru fjarri því að hafa náðst á nánast öllum sviðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.