Innlent

Um­ferð í Vaðla­heiðar­göngum dróst saman um 20 prósent milli ára

Atli Ísleifsson skrifar
Í dag eru 28.700 virkir notendur í grunni Veggjalds.is.
Í dag eru 28.700 virkir notendur í grunni Veggjalds.is. Vísir/Vilhelm

Heildarumferð í Vaðlaheiðargöngum á árinu 2020 var 414 þúsund ferðir, um 100 þúsund færri ferðir en árið 2019. Hljómar samdrátturinn því upp á 19,5 prósent milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vaðlaheiðargöngum, þar sem segir að umferð í göngunum hafi gengið vel og verið án óhappa.

„Að meðaltali voru 1135 ferðir um göngin á sólarhring á árinu 2020. Yfir sumarmánuðina voru ferðirnar að jafnaði 1850 á sólarhring en 726 yfir vetrarmánuðina. Árið 2020 voru um 96% ökutækja sem ekið er um Vaðlaheiðargöng fólksbílar, 2% millistórir bílar (3,5-7,5 tonn) og 4% stórir bílar (stærri en 7,5 tonn).

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar voru 107 þúsund ferðir ökutækja um Víkurskarð á árinu 2020 og dróst umferð þar saman um 38,6% frá árinu 2019. Til samanburðar leiddi talning Vegagerðarinnar í ljós 14% minni umferð á hringveginum en árið 2019 en á Norðurlandi nam samdrátturinn á árinu 25,4%.

Veggjald.is

Ef borin er saman umferð um Vaðlaheiðargöng annars vegar og Víkurskarð hins vegar kemur í ljós að hlutfallslega fleiri óku um göngin á árinu 2020 en árið 2019. Af heildarumferð milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals fóru 80% vegfarenda um Vaðlaheiðargöng en til samanburðar var talan 75% 2019,“ segir í tilkynningu.

28.700 virkir notendur

Veggjald í Vaðlaheiðargöng er greitt í gegnum skráningu á síðunni veggjald.is þar sem notandi skráir bílnúmer og greiðslukort. 

„Myndavélar í göngunum greina bílnúmerið og sjálfkrafa er síðan gjaldfært af kortinu þegar ekið er í gegn. Ef bíll er ekki skráður er ferðin innheimt í heimabanka eiganda bílsins og leggst þá 400 kr. bankainnheimtukostnaður við stakt gjald. Í dag eru 28.700 virkir notendur í grunni Veggjalds.is og skráð ökutæki eru 97.250,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.