Innlent

Brottförum fækkaði um eina og hálfa milljón árið 2020

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur fækkað mjög vegna kórónuveirufaraldursins.
Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur fækkað mjög vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/vilhelm

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 480 þúsund árið 2020 eða um 1,5 milljón færri en árið 2019, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkunin milli ára nemur 75,9 prósent. Ekki hafa svo fáar brottfarir mælst í tíu ár, að því er segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Sjö af hverjum tíu sem fóru af landinu árið 2020 fóru á tímabilinu janúar til mars, eða um 333 þúsund, og um fjórðungur yfir sumarmánuðina, eða um 115 þúsund manns. Brottförum erlendra farþega fækkaði alla mánuði 2020 frá fyrra ári og nam fækkunin meira en 90 prósent sjö mánuði ársins.

Brottförum í sumar fækkaði um 562 þúsund milli ára, eða um 83 prósent. Um sex prósent brottfara árið 2020 voru farnar sjö mánuði ársins eða á tímabilinu apríl til maí og á tímabilinu september til desember.

„Leita þarf tíu ár aftur í tímann til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega eða til ársins 2010 en þá mældist fjöldi þeirra um 459 þúsund,“ segir í tilkynningu Ferðamálastofu.

Í töflunni hér að ofan má sjá nánari útlistun á brottförum eftir mánuðum en þeim fækkaði á bilinu 10-15% í janúar til febrúar, um ríflega 50% í mars, um 80% í júlí og um 75% í ágúst. Aðra mánuði ársins fækkaði brottförum um meira en 90% milli ára eða í apríl, maí, júní, september, október, nóvember og desember.

Flestar brottfarir, eða 101 þúsund, voru af hálfu Breta. Þær voru um þrisvar sinnum færri en árið 2019.

„Brottfarir Bandaríkjamanna komu þar á eftir en þær mældust um 52 þúsund árið 2020 og fækkaði um 411 þúsund milli ára eða 88,7%. Í þriðja sæti voru brottfarir Þjóðverja, um 43 þúsund talsins og fækkaði þeim um 88 þúsund frá árinu 2019 eða um 66,9%. Samtals voru brottfarir Breta, Bandaríkjamanna og Þjóðverja um tvær af hverjum fimm (41,4%),“ segir í tilkynningu.

Brottfarir Íslendinga voru um 130 þúsund talsins árið 2020 eða um 481 þúsund færri en árið 2019. Fækkunin nemur 78,7 prósent milli ára. Flestar brottfarir voru farnar á tímabilinu janúar til mars eða 67,8 prósent. Brottfarir Íslendinga hafa ekki mælst svo fáar frá því Ferðamálastofa hóf talningar árið 2002.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.