Fótbolti

Elsti atvinnumaðurinn fær nýjan samning á sextugsaldri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn 36 ára Andrés Iniesta þykir vera kominn á efri ár sem fótboltamaður. Hann á samt ekkert í hinn bráðum 54 ára Kazuyoshi Miura sem gæti verið pabbi Spánverjans.
Hinn 36 ára Andrés Iniesta þykir vera kominn á efri ár sem fótboltamaður. Hann á samt ekkert í hinn bráðum 54 ára Kazuyoshi Miura sem gæti verið pabbi Spánverjans. getty/Masashi Hara

Kazuyoshi Miura hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við japanska úrvalsdeildarliðið Yokohama. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema hvað Miura er 53 ára.

Tímabilið í japönsku úrvalsdeildinni hefst 27. febrúar en daginn áður fagnar Miura 54 ára afmæli sínu. Hann fæddist í Shizouka 26. febrúar 1967.

Miura er elsti atvinnumaður í fótbolta í heiminum og elsti leikmaðurinn sem hefur skorað í atvinnumannadeild.

Hann gekk í raðir Yokohoma 2005 og næsta tímabil verður hans sautjánda hjá félaginu.

Miura er ein stærsta fótboltastjarna sem Japan hefur átt. Hann lék 89 landsleiki á árunum 1990-2000 og skoraði í þeim 55 mörk.

Miura lék lengi í Brasilíu en hefur einnig leikið á Ítalíu og í Króatíu. Hann lék sína fyrstu leiki á ferlinum 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×