Enski boltinn

Liverpool menn vilja vinna bikarinn sem þeir hafa ekki unnið undir stjórn Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georginio Wijnaldum með bikarinn sem Liverpool fékk fyrir sigur í heimsmeistarakeppni félagsliða.
Georginio Wijnaldum með bikarinn sem Liverpool fékk fyrir sigur í heimsmeistarakeppni félagsliða. Getty/David Ramos

Georginio Wijnaldum segir sig og félaga sína í Liverpool liðinu vera með augum á því að vinna ensku bikarkeppnina á þessu tímabili.

Wijnaldum skoraði eitt marka Liverpool liðsins í 4-1 sigri á krakkaliði Aston Villa á föstudagskvöldið en með því tryggði Liverpool sér sæti í 32 liða úrslitum enska bikarsins.

Liverpool hefur ekki unnið enska bikarinn síðan 2006 og í knattspyrnustjóratíð Jürgen Klopp hefur liðið aðeins einu sinni komist í átta liða úrslit og aldrei lengra en það.

„Við sögðum það í byrjun tímabilsins að við ætluðum okkur að keppa um alla titla,“ sagði Georginio Wijnaldum í samtali við heimasíðu Liverpool.

„Auðvitað er það erfitt að spila alltaf með okkar sterkasta lið af því að þetta eru svo margir leikir og því er nauðsynlegt að dreifa álaginu,“ sagði Wijnaldum.

„Við gerðum vel á móti Aston Villa og vonandi tekst okkur líka vel upp í næstu umferð af því að þetta er keppni sem við viljum vinna. Við höfum unnið margra titla á síðustu árum en við höfum ekki unnið enska bikarinn. Við viljum breyta því,“ sagði Wijnaldum.

Liverpool liðið var ekki búið að skora í tveimur leikjum í röð fyrir bikarleikinn á móti Aston Villa.

„Svona hlutir gerast. Ég held samt að þetta hafi meira snúist um það að við sköpuðum ekki nógu mörg færi frekar en að við værum ekki að skora mörk. Allir, meðal annars við sjálfir, eru vanir að sjá okkur skora mikið af mörkum og búa til mikið af færum,“ sagði Wijnaldum.

„Fótboltinn er að breytast og liðin eru að breytast. Liðin eru að verða betri og þau eru búin að skoða okkur vel. Þau þekkja orðið okkar styrkleika og hafa sett upp ákveðið leikskipulag. Við verðum bara að passa upp á það að halda áfram að skapa færi,“ sagði Wijnaldum.

„Við erum ekki að spila á móti lélegum liðum. Við erum að mæta góðum liðum sem hafa leikgreint okkur. Þetta er því orðið erfiðara fyrir okkur en á síðustu árum. Við verðum bara að finna leiðir til að breyta þessum leikjum til að opna hlutina fyrir okkur,“ sagði Georginio Wijnaldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×