Innlent

Gætu þurft að opna fleiri far­sóttar­hús vegna mikillar fjölgunar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Mikil fjölgun hefur verið í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg síðustu daga. Forstöðumaður segir ekki ólíklegt að það þurfi að opna fleiri slík hús ef fram heldur sem horfir. Ríflega þúsund manns hafa þurft að dvelja í sóttvarnahúsum frá því kórónuveirufaraldurinn hófst.

Frá áramótum hafa mun fleiri veirusmit greinst við skimun á landamærum en innanlands, eða 69 tilfelli á landamærum á móti 42 innanlands. Margir hafa því þurft að fara nánast beint af flugvellinum í farsóttarhúsið á Rauðarárstíg en þar dvelja nú 48 manns. Þar voru 15 í byrjun desember og hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu daga.

Forstöðumaður þar segir ekki ólíklegt að opna þurfi fleiri hús ef þróunin heldur svona áfram. Margir hafi þurft að dvelja þar frá því að farsóttin hófst.

Kemur á öllum tímum sólarhrings

„Síðan að þetta hófst núna höfum við verið að taka hátt í þúsund manns til okkar í þessi fimm hús sem við höfum verið að reka, þar af er um helmingur sýktur eða um 500 manns,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa.

Hann segir fólk koma á öllum tímum sólarhringsins og til að mynda hafi einstaklingur komið rétt áður klukkurnar hringdu inn jólin á aðfangadag.

„Fólk kemur hingað á hverjum degi og við fengum til dæmis einn gest sem kom hingað tíu mínútur í sex, nánast stóð upp frá jólasteikinni til að koma hingað þegar það var hringt í hann,“ segir Gylfi.

„Flestir bera sig nú bara ágætlega en auðvitað er þetta erfitt, það er þungt að greinast með Covid og tala nú ekki um að þurfa jafnvel að fara út af heimili ef þau búa á þannig stað þar sem þau geta ekki verið á meðan veikindum stendur.“

Í því samhengi bætir Gylfi við að daglega sé einhverjum gestum farsóttarhúsanna veitt sáluhjálp.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.