Innlent

„Við viljum ekki að þessar reglur séu of íþyngjandi“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir segist vongóð um góða þátttöku almennings í bólusetningu við veirunni.
Svandís Svavarsdóttir segist vongóð um góða þátttöku almennings í bólusetningu við veirunni. Vísir/Vilhelm

Takmarkanir á samkomum verða rýmkaðar þann 13. janúar. Samkvæmt reglunum verður krám og skemmtistöðum áfram gert að hafa lokað. Heilbrigðisráðherra segist skilja gremju fólks yfir misræmi í sóttvarnaraðgerðum.

Björn Árnason, eigandi Skúla Craftbar segir bareigendur alls ekki sátta.

„Bareigendur eru náttúrulega mjög ósáttir með það að við séum einu staðirnir í veitingabransanum sem erum með lokað. Við getum alveg framfylgt þeim reglum sem eru í gildi núna, það er að segja að vera með fjöldatakmarkanir, takmarkaðan opnunartíma, sætisskyldu og tveggja metra reglu,“ sagði Björn Árnason í kvöldfréttum Stöðvar2.

Heilbrigðisráðherra segist vel skilja gremju fólks vegna misræmis í sóttvarnarreglum. Hún ræddi um nýjar reglur í Reykjavík síðdegis í dag.

„Já ég skil það alveg og það er þannig og hefur verið þannig að frá því að við beittum þessum fyrstu sóttvarnareglum í mars á síðasta ári þá hefur alltaf verið eitthvað um það að sumum finnst við ganga og stutt og öðrum finnst við ganga of langt og þannig mun það alltaf vera,“ sagði Svandís.

Áfram í samtali við rekstraraðila

Svandís segir mikilvægt að hafa skýr rök fyrir aðgerðum.

„Þess vegna þurfum við að hafa þau skýr og rökin að koma fram i minnisblaði frá sóttvarnalækni og byggja á þessum tölum eins og ég nefni. En um leið viljum við vera líka móttækileg fyrir þeim athugasemdum sem koma frá rekstaraaðilum og ég árétta það að við erum ekki búin að ljúka við gerð reglugerðarinnar og fréttatilkynningin liggur frammi og við erum áfram í samtali við þessa aðila og höfum átt náttúrulega átt fundi, bæði ráðuneytið og sóttvarnarlæknir með fjölmörgum rekstraraðilum,“ sagði Svandís.

„Við viljum ekki að þessar reglur séu of íþyngjandi því að það samræmist ekki okkar markmiðum við viljum að virknin í samfélaginu sé eins mikil og hægt er og tillögur sóttvarnalæknis miða við það.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.