Enski boltinn

Eigandi City keypti elsta bikarinn fyrir rúmlega 131 milljón króna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester City vann þennan bikar 1904 en það var jafnframt fyrsti stóri titilinn í sögu félagsins.
Manchester City vann þennan bikar 1904 en það var jafnframt fyrsti stóri titilinn í sögu félagsins. getty/Yui Mok

Sheik Mansour, eigandi Manchester City, hefur keypt elsta verðlaunagrip ensku bikarkeppninnar sem til er.

Bikarinn sem Mansour keypti var notaður á árunum 1896-1910. City lyfti bikarnum 1904 eftir sigur á Bolton Wanderers í bikarúrslitaleik, 1-0.

Bikarinn var áður í eigu Davids Gold, annars eiganda West Ham, en hann ákvað að selja hann í fyrra.

Mansour stökk þá til og keypti bikarinn á uppboði fyrir 760 þúsund pund, eða rúmlega 131 milljón íslenskra króna. City mun lána enska fótboltasafninu í Manchester bikarinn um óákveðinn tíma.

Framkvæmdastjóri safnsins sagðist vera Mansour þakklátur enda óttaðist hann að bikarinn yrði seldur úr landi.

Bikarinn hefur mikla þýðingu fyrir City en sigurinn í bikarkeppninni 1904 var fyrsti stóri titilinn í sögu félagsins. City hefur síðan unnið ensku bikarkeppnina fimm sinnum til viðbótar, síðast 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×