Erlent

Stefnir í fullnaðarsigur Demókrata í Georgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jon Ossoff mun líklega sigra andstæðing sinn David Perdue og verða fimmtugasti öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins.
Jon Ossoff mun líklega sigra andstæðing sinn David Perdue og verða fimmtugasti öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins. AP/Branden Camp

Útlit er fyrir að Demókratar hafi tryggt sér meirihluta í bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings auk þess að stjórna Hvíta húsinu. Þó niðurstaða liggi ekki fyrir að fullu í aukakosningum til tveggja sæta Georgíu í öldungadeildinni sem fóru fram í gær, virðist sem Demókratar muni ná báðum sætunum.

Með því eru fimmtíu Demókratar og fimmtíu Repúblikanar í öldungadeildinni og Kamala Harris, verðandi varaforseti, mun hafa úrslitaatkvæði.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa þegar áætlað að Demókratinn Raphael Warnock hafi sigrað andstæðing sinni, Kelly Loeffler. Warnock verður fyrsti svarti öldungadeildarþingmaðurinn frá suðurríki og í heildina ellefti svarti öldungadeildarþingmaðurinn.

Loeffler hefur staðhæft að hún muni að endingu bera sigur úr býtum.

Enn er of naumt á munum í baráttu þeirra Jon Ossoff, Demókrata, og David Perdue, Repúblikana, til að staðhæfa hvor mun sigra en útlit er fyrir að Ossoff muni sigra. Það gæti þó ekki orðið formlegt fyrr en eftir nokkra daga vegna talningar póstatkvæða og annarra utankjörfundaratkvæða.

Kjósendur bíða í röð eftir því að greiða atkvæði.AP/Curtis Compton

Ossoff leiðir nú með um sextán þúsund atkvæðum þegar búið er að telja um 98 prósent atkvæða. Þau atkvæði sem ekki hafa verið talin koma frá sýslum þar sem Demókrötum hefur vegnað betur en Repúblikönum og því búast sérfræðingar við að sigur Ossoff sé líklegri en ekki, samkvæmt grein Politico.

Þegar þetta er skrifað, um hálf tíu að íslenskum tíma, áætla sérfræðingar New York Times að um 55 þúsund atkvæði séu ótalin. Flest þeirra eru frá úthverfum Atlanta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×