Erlent

Pence tjáði Trump að hann hefði ekki vald til að breyta úrslitunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pence er sagður hafa tjáð Trump að hann hefði ekki vald til að hafa áhrif á þau úrslit sem ríkin skila inn en á sama tíma sagt að hann myndi liggja yfir málinu fram á síðustu mínútu.
Pence er sagður hafa tjáð Trump að hann hefði ekki vald til að hafa áhrif á þau úrslit sem ríkin skila inn en á sama tíma sagt að hann myndi liggja yfir málinu fram á síðustu mínútu. epa/J. Scott Applewhite

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er sagður hafa tjáð forsetanum að hann muni ekki getað komið í veg fyrir að Bandaríkjaþing staðfesti kjör Joe Biden sem næsta forseta landsins. 

Donald Trump hefur ítrekað haldið því fram og farið fram á að Pence hafi vald til að snúa niðurstöðu forsetakosninganna sér í vil.

Samkvæmt New York Times áttu Pence og Trump samtal yfir hádegismat í gær, eftir að síðarnefndi hélt því fram á Twitter að varaforsetinn gæti hafnað kjörmönnum sem hefðu verið valdir „með sviksamlegum hætti“.

Varaforsetinn mun stjórna þingfundi í dag þar sem báðar deildir munu „telja“ og staðfesta atkvæði kjörmanna en útlit er fyrir að þingmenn repúblikana muni gera athugasemdir við niðurstöður að minnsta kosti þriggja ríkja.

Ítrekað hefur komið fram að forsetinn og stuðningsmenn hans hafa ekki lagt fram neinar sannanir sem styðja fullyrðingar sínar um kosningasvik og þá hefur Pence ekki vald til að breyta þeim úrslitum sem einstaka ríki hafa staðfest og sent þinginu.

Atkvæðum kjörmanna verður ekki hafnað nema með samþykki meirihluta beggja þingdeilda og engar líkur eru á að það gerist. Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni og margir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst því yfir að þeir styðji ekki tilraunir til að koma í veg fyrir að Joe Biden verði settur í embætti 20. janúar næstkomandi.

Pence er sagður hafa varið síðust dögum í að dansa á línunni; að koma Trump í skilning um að hann hafi ekki þau völd sem forsetinn telur hann hafa en friðþægja hann á sama tíma, til að geta haldið í vonina um forsetaframboð að fjórum árum liðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×