Enski boltinn

Mourinho sammála því að leikurinn í kvöld sé sá mikilvægasti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jose Mourinho hefur unnið marga titla á sínum stjóraferli en hann á enn eftir að vinna titil sem knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur.
 Jose Mourinho hefur unnið marga titla á sínum stjóraferli en hann á enn eftir að vinna titil sem knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur. AP/Andy Rain

Tottenham getur tryggt sér sæti í úrslitaleik enska deildabikarsins með sigri á b-deildarliði Brentford í kvöld.

Jose Mourinho tók við sem knattspyrnustjóri Tottenham í nóvember 2019 og vonast nú til að hjálpa Tottenham að vinna sinn fyrsta titil síðan árið 2008.

Tottenham er komið í undanúrslit enska deildabikarsins og er því aðeins tveimur leikjum frá því að vinna sinn fyrsta titil síðan félagið vann 2-1 sigur á Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins 24. febrúar 2008. Jonathan Woodgate skoraði þá sigurmarkið í framlengingu.

„Þegar meira en áratugur er liðinn frá titli þá verður hver keppni enn mikilvægari. Ef við vinnum tvo leiki til viðbótar þá fáum við bikar,“ sagði Jose Mourinho á blaðamannafundi fyrir leik kvöldsins.

Mourinho var spurður hvort að undanúrslitaleikurinn í kvöld væri sá mikilvægasti síðan hann settist í stjórastólinn hjá Tottenham.

„Þegar við miðum við það að félagið hefur verið að eltast við bikar svo lengi þá myndi ég segja það,“ sagði Mourinho.

„Auðvitað höfum við spilað fullt af mikilvægum leikjum. Á síðasta tímabili áttum við leik hjá Crystal Palace sem gat tryggt okkur sæti í Evrópudeildinni,“ sagði Mourinho.

„Leikurinn á móti Leeds á laugardaginn var mjög mikilvægur af því að við höfum ekki unnið í nokkrum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni. Ég segi samt alltaf að undanúrslitaleikur sé mikilvægur leikur. Eini leikurinn sem er mikilvægari en hann er sjálfur úrslitaleikurinn,“ sagði Jose Mourinho.

Komist Tottenham í úrslitaleikinn þá mætir liðið þar annað hvort Manchester City eða Manchester United.

„Þetta verða tveir erfiðir leikir auðvitað en við vinnum þá fáum við bikar. Það yrði mjög gott mál fyrir bæði félagið og leikmennina,“ sagði Mourinho.

„Þetta snýst um mitt félag og um leikmenn sem vilja vinna bikara. Þetta snýst um stuðningsmennina sem vilja bikara. Þessi bikar er í boði ef við við vinnum tvo leiki í viðbót,“ sagði Mourinho.

„Auðvitað verða þetta erfiðir mótherjar en við þurfum bara tvo sigurleiki. Við horfum nú á þennan undanúrslitaleik þar sem við berum virðingu fyrir mótherjum okkar sem hafa þegar slegið góð úrvalsdeildarfélög úr keppni,“ sagði Jose Mourinho.

Brentford hefur unnið fjögur úrvalsdeildarfélög á leið sinni í undanúrslitin eða Southampton, West Bromwich Albion, Fulham og Newcastle United.

Leikur Tottenham Hotspur og Brentford hefst klukkan 19.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Útsendingin hefst klukkan 17.35.


Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×