Innlent

Kennari sakaður um kynferðislega áreitni og ruddalegt athæfi gagnvart stúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brot mannsins eru sögð hafa átt sér stað síðla árs 2017 og á fyrri hluta árs 2018.
Brot mannsins eru sögð hafa átt sér stað síðla árs 2017 og á fyrri hluta árs 2018. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á Norðurlandi eystra hefur verið ákærður af Embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðisbrot gegn barni og barnaverndarlagabrot á árunum 2017 og 2018. Í ákærunni á hendur manninum segir að barnið hafi verið nemandi hans.

Karlmaðurinn er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni sem honum var trúað fyrir til kennslu með því að hafa ítrekað á tímabilinu 19. desember 2017 til 11. maí 2018 í samskiptum við stúlku áreitt hana kynferðislega í gegnum Facebook.

Bæði er kennarinn sakaður um að hafa áreitt hana með kynferðislegum ummælum og sömuleiðis kynferðislegu myndefni. Með háttsemi sinni hafi hann sært blygðunarsemi stúlkunnar og sýnt henni ósiðlegt athæfi.

Jafnframt er kennarinn sakaður um að hafa brotið barnaverndarlög með því að hafa á tímabilinu 30. nóvember 2017 til 11. maí 2018 í samskiptum við stúlkuna sent henni skilaboð með ummælum, táknum og myndefni þar sem hæðst er að jaðarsettum hópum s.s. á grundvelli fötlunar, þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar. Þannig hafi hann sýnt henni ruddalegt og ósiðlegt athæfi.

Einkaréttarkrafa liggur fyrir í málinu en upplýsingar um hana fengust ekki afhentar frá Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Málið verður þingfest í dómnum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×