Enski boltinn

Meira en fjórir klukkutímar af fótbolta síðan að Liverpool skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur ekkert gengið upp hjá Mohamed Salah í síðustu leikjum.
Það hefur ekkert gengið upp hjá Mohamed Salah í síðustu leikjum. AP/Michael Steele

Mikil umræða hefur verið um skort á varnarmönnum hjá Liverpool liðinu á þessu tímabili en það eru sóknarmennirnir sem eru að skjóta púðurskotum.

Eftir 1-0 tap á móti Southampton er svo komið að Liverpool liðið hefur spilað í 258 mínútur í ensku úrvalsdeildinni án þess að skora en það eru meira en fjórir klukkutímar af fótbolta.

Frá því að Liverpool vann 7-0 sigur á Crystal Palace á útivelli þá hafa sóknarmenn liðsins verið afar bitlausir í síðustu leikjum sínum.

Á þessum tíma hafa leikmenn liðsins reynt 41 skot á móti liðum West Brom, Newcastle og Southampton.

Síðasta mark Liverpool liðsins í ensku úrvalsdeildinni skoraði Sadio Mané á tólftu mínútu í leiknum á móti West Brom á Anfield 27. desember síðastliðinn.

Liverpool hafði skorað í öllum leikjum sínum fyrir þessa tvo síðustu á móti Newcastle og Southampton en fann ekki leiðina í markið í þeim báðum.

Liverpool hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í þessum þremur leikjum sem er ekki alslæmt miðað við það að liðið fékk á sig nítján mörk í fyrstu fjórtán leikjum sínum.

„Það eru þessi vandamál hjá okkur. Já, við höfum áhyggjur af þessu en fótboltavandamál leysum við með fótboltalausnum og við erum að vinna í þessu,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Við þekkjum stöðuna. Við erum ekki vitleysingar og við þurfum að bregðast við þessu í næsta leik,“ sagði Klopp.

Nú eru tólf dagar í næsta deildarleik Liverpool sem er á móti Manchester United á Anfield. Liðið spilar aftur á móti bikarleik á móti Aston Villa á föstudagskvöldið kemur.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×