Enski boltinn

Grét af gleði eftir sigurinn á Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ralph Hasenhüttl var í sjöunda himni eftir að Southampton sigraði Liverpool.
Ralph Hasenhüttl var í sjöunda himni eftir að Southampton sigraði Liverpool. getty/Robin Jones

Tilfinningarnar báru Ralph Hasenhüttl, knattspyrnustjóra Southampton, ofurliði eftir sigurinn á Liverpool, 1-0, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Þegar Andre Marriner flautaði til leiksloka féll Hasenhüttl niður á hnén til að fagna og hreinlega grét af gleði. Þetta var fyrsti sigur Southampton á Liverpool síðan 2015 og í fyrsta sinn sem lið Hasenhüttls nær í stig gegn liði sem Jürgen Klopp stýrir.

„Ég var með tár í augunum, út af vindinum,“ sagði Hasenhüttl léttur eftir leik. „Þegar þú sérð strákana berjast með kjafti og klóm fyllistu stolti. Þú þarft að eiga fullkominn leik gegn Liverpool og ég held að okkur hafi tekist það.“

Danny Ings kom Southampton yfir strax á 2. mínútu leiksins og Dýrlingunum tókst að verja það forskot.

„Við vorum undir mikilli pressu og varnarleikurinn í kringum vítateiginn var lykilinn að sigrinum. Við reyndum samt að spila fótbolta og gerðum það vel,“ sagði Hasenhüttl.

„Röddin er næstum því farin. Leikmennirnir eru úrvinda, þú verður að vera þannig til að vinna svona lið. Strákarnir trúðu á það sem þeir voru að gera. Þetta er fullkomið kvöld.“

Með sigrinum í gær komst Southampton upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×