Innlent

Meintur áhuga­kylfingur stelur söfnunar­bauki úr Mela­búðinni

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur Alan kaupmaður telur ólíklegt að um kylfing hafi verið að ræða þó hann hafi verið með golfpoka og kylfur á öxlinni. En maðurinn gerði sér lítið fyrir og hafði á brott með sér söfnunarbauk Hringsins.
Pétur Alan kaupmaður telur ólíklegt að um kylfing hafi verið að ræða þó hann hafi verið með golfpoka og kylfur á öxlinni. En maðurinn gerði sér lítið fyrir og hafði á brott með sér söfnunarbauk Hringsins.

Pétur Alan Guðmundsson kaupmaður er furðu lostinn eftir að maður nokkur gerði sér lítið fyrir og hafði á brott með sér söfnunarbauk Hringsins sem hafði verið komið fyrir í Melabúðinni.

Pétur segist í samtali við Vísi nú í morgun ekki vita hversu mikið var í bauknum en hann er nú í sambandi við Hringskonur varðandi það að fá nýjan bauk í búðina. Og ætlar að spyrja þá hvort vitað sé hversu mikið má ætla að maðurinn hafi haft uppúr krafsinu. En þetta var á laugardagsmorgni klukkan 11.

Pétur hefur að höfðu samráði við lögregluna birt myndir úr öryggismyndavél í hópi Vesturbæinga á Facebook.

„Þessi ógæfumaður stal söfnunarbauk Hringsins hér í Melabúðinni í morgun, var með golfkylfur og fullan bakpoka sem mögulega eru ekki í hans eigu og einhver gæti kannast við, mögulega saknað og gætu myndirnar aðstoðað við að koma þeim heim. Þessar myndir eru birtar að höfðu samráði við lögregluna,“ segir Pétur í texta sem fylgir myndunum.

Pétur segist telja einsýnt að maðurinn hafi „verið á einhverju“. Það vekur athygli að hann var jafnframt með golfpoka og golfkylfur á öxlinni. Væntanlega hefur viðkomandi ekki verið á leið út á golfvöll, næsti golfvöllur er Nesvöllurinn og ólíklegt að hann hafi verið að fara á golfæfingu nú um miðjan vetur. Þannig má leiða að því líkur að frekar sé það svo að golfsettið sé illa fengið fremur en að þarna hafi verið kylfingur á ferð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×