Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Forsætisráðherra segir samstarf með Evrópusambandinu í bóluefnamálum fela í sér styrkleika.
„Það sem gerist er að við ákveðum að fara í samstarf með Evrópusambandinu og Noregi. Einhverjum hefur ekki fundist það góð hugmynd. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun. Afhverju? Jú með þeim hætti þá bæði auðvitað njótum við samstarfs við aðrar þjóðir. Njótum ákveðins faglegs styrkleika t.d. frá Lyfjastofnun Evrópu og gerðir eru samningar við ólík fyrirtæki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín telur líklegt að búið verði að bólusetja meirihluta þjóðarinnar á fyrri hluta ársins.
„Mínar væntingar standa til þess að við verðum komin með meirhluta landsmanna bólusettan hér á fyrri hluta árs. Ég held að það séu allar líkur til þess að það gangi eftir svona út frá því hvað þetta er að gerast hratt í kringum okkur,“ sagði Katrín.
Í spilaranum hér að neðan má hlusta á viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Katrínu Jakobsdóttur.
Boltinn hjá Pfizer
Katrín vildi lítið gefa upp um viðræður við Pfizer um mögulegt samstarfsverkefni.
„Það hafa bara átt sér stað fundir og okkar fólk hefur gert grein fyrir, Kári og Þórólfur hafa auðvitað leitt það, hvaða aðstæður eru fyrir hendi hér á landi og hvernig við teljum að þetta gæti virkað og eins og fram hefur komið þá er boltinn hjá Pfizer,“ sagði Katrín.
„Við í raun og veru höfum nálgast þetta þannig að við séum bara að gæta hagsmuna okkar á ölum vígstöðum. Hvort sem það er í þessu samstarfi þjóða eða út frá einhverjum svona hugmyndum.“