Enski boltinn

Jón Daði byrjaði í tapi - Þremur leikjum frestað

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jón Daði í leik með Millwall.
Jón Daði í leik með Millwall. vísir/getty

Útbreiðsla kórónuveirunnar á Englandi hafði veruleg áhrif á leikjahald dagsins í neðri deildum ensku knattspyrnunnar.

Í ensku B-deildinni var þremur leikjum frestað vegna smita sem komið hafa upp í leikmannahópum liða á undanförnum dögum.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson og félagar hans í Millwall fengu þó að spila og hóf Jón Daði leik í fremstu víglínu Millwall sem fékk Coventry í heimsókn. Gestirnir náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik og var Jóni Daða skipt útaf í leikhléi.

Millwall náði að klóra í bakkann með marki úr vítaspyrnu í síðari hálfleik en tapaði leiknum engu að síður, 1-2.

Topplið Norwich styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar með 1-0 sigri á Barnsley þar sem Emi Buendía gerði eina mark leiksins.

Í ensku C-deildinni var Daníel Leó Grétarsson ekki í leikmannahópi Blackpool sem tapaði 2-1 fyrir Bristol Rovers. Í C-deildinni var alls fimm leikjum frestað í dag vegna Covid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×