Töluverð eignaspjöll urðu á gufubaðsaðstöðu sundlaugar í Kópavogi eftir að flugeldar voru sprengdir þar.Vísir/Vilhelm
Einhver eignaspjöll urðu í sundlaug í Kópavogi í nótt en búið var að sprengja flugelda í gufubaðsaðstöðu laugarinnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Ekki er ljóst í hvaða sundlaug flugeldasprengingarnar fóru fram.
Nokkuð annríki hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag en lögreglu var tilkynnt um þrjú innbrot, eitt í geymslu í Hlíðunum, annað í geymslu í Laugardalnum þar sem rafmagnsjóli og hjálmi var stolið, og það þriðja í annarri geymslu í Hlíðunum.
Þá barst lögreglu tilkynning á sjötta tímanum um unglinga sem höfðu verið að kasta flugeldum að yngri krökkum.
Einstaklingur var þá handtekinn í Breiðholti fyrir eignaspjöll auk þess að hafa ekki fylgt fyrirmælum lögreglu. Aðilinn var að sögn lögreglu í mjög annarlegu ástandi og reyndi hann meðal annars að slá lögreglumann með hlaupahjóli. Lögreglan endaði á því að nota piparúða til þess að yfirbuga manninn.
Að sögn lögreglu hefur verið mikið um útköll vegna ölvunar fólks sem er enn illa áttað eftir gamlárskvöld.
Mikil svifryksmengun myndaðist á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna flugelda sem skotið var upp. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir slíka megun skaðlega heilsu fólks og að hugsanlega væri hægt að setja kvóta á hversu mikið magn megi flytja inn af flugeldum og banna ákveðnar tegundir flugelda.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segist ekki vita til þess að í gærkvöldi hafi verið mikið um brot á samkomutakmörkunum.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.