Enski boltinn

Cantona snýr aftur á Old Trafford

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Cantona á skrautlegan feril að baki
Cantona á skrautlegan feril að baki Mynd/Getty Images
Eric Cantona mun snúa aftur á Old Trafford í ágúst og taka þátt í kveðjuleik Paul Scholes. Scholes sem lagði skóna á hilluna fyrir skemmstu spilaði við hlið Cantona á sínum tíma í framlínu Manchester United.

Cantona mun stýra liði New York Cosmos sem mætir Manchester United. Hið goðsagnakennda lið Cosmos reynir um þessar mundir fá inngöngu í MLS deildina vestanhafs. Á sínum tíma spiluðu ekki ómerkari leikmenn en Pele og Franz Beckenbauer með liðinu.

„Ég vil óska Paul til hamingju með hans ótrúlega feril hjá Manchester United og ég hlakka til að snúa aftur á Old Trafford í nýju hlutverki mínu hjá New York Cosmos,“ sagði Cantona. Frakkinn spilaði með United á árunum 1992-1997 og vann til fjölmargra titla með félaginu.

Scholes segist hlakka mikið til kveðjuleiksins.

„Þetta kvöld mun hafa mikla þýðingu fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég mun njóta hvers augnabliks,“ sagði Scholes.

Leikurinn fer fram 5. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×