Innlent

Einn á gjörgæslu eftir bílveltu

Einn er á gjörgæslu og fjórir voru fluttir á slysadeild eftir umferðarslys vestan við Vogaveg á Reykjanesbraut um klukkan eitt í nótt. Þá fór fólksbifreið nokkrar veltur eftir brautinni. Samkvæmt dagbók lögreglunnar er talið að ökumaðurinn hafi talið sig vera á tvöföldun brautarinnar og brugðið þegar bíll kom á móti honum. Hann hafi þá rykkt í stýrið og bíllinn oltið við það.

Alls voru fimm manns í bílnum og voru þeir allir fluttir með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Samkvæmt vakthafandi lækni voru tveir útskrifaðir eftir skoðun, en þrír lagðir inn, þar af einn á gjörgæslu.

Mikið hefur verið um umferðaróhöpp á vegarkaflanum við Vogaafleggjara undanfarna mánuði og má að miklu leyti rekja þau til vegaframkvæmda. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hafa merkingar verið með ágætasta móti síðan Vegagerðin tók umsjón með þeim í desember. Það virðist því vera sem ökumenn sýni ekki nægilega aðgát þegar komið er inn á framkvæmdasvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×