Innlent

Umferðarmannvirki skapa hættu

Stórar vörubifreiðar eiga oft í stökustu vandræðum með að sneiða framhjá umferðareyjum án þess að keyra upp á þær. Að sögn Signýjar Sigurðardóttur, forstöðumanns flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu, berast samtökunum fjölmargar kvartanir frá vörubifreiðastjórum vegna þessa. Einkum hafa menn áhyggjur af öryggismálunum, en mikil hætta er á að farmur falli af bílum við aðstæður sem þessar, jafnvel það mikil að stórslys getur hlotist af. Og tjónið liggur ekki bara hjá flutningafyrirtækjunum, því skemmdir á umferðamannvirkjunum sjálfum eru töluverðar.

Einnig hefur færst í vöxt undanfarið að vörubifreiðar reki farm sinn í göngubrýr. Til að koma í veg fyrir slíkt tjón hafa bílstjórar tekið upp á því að fara krókaleiðir. Þurfa þeir oft að fara í gegnum íbúðarhverfi og jafnvel framhjá leikskólum með tilheyrandi slysahættu.

Að sögn Signýjar virðist sem samgönguyfirvöld hafi gleymt að taka tillit til flutningaaðila við hönnun umferðarmannvirkjanna og að þetta sé vandamál víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Samtökin hafa um langa hríð reynt að vekja athygli á þessu vandamáli en fátt hefur verið um svör hjá samgönguyfirvöldum. Þar til nú, því samtökin munu á næstu vikum funda með Vegagerðinni  og samgönguyfirvöldum í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×