Innlent

Bjóst ekki við að drengurinn myndi lifa

Vitni að því þegar snjósleði rann stjórnlaust á fjórtán ára gamlan dreng í Bláfjöllum í gær segist ekki hafa búist við því að hann myndi lifa af. Sleðinn hafi skollið á piltinum á miklum hraða og þeir svo oltið áfram. Vitnið óskaði eftir nafnleynd en sat í nýju stólalyftunni næst þeim stað sem slysið átti sér stað.

Slysið varð með þeim hætti að starfsmaður var í lyftuviðgerð í nýju stólalyftunni. Hann var í miklum bratta eftir að brjóta ís á staur og var á leið niður þegar sleðinn lendti í ójöfnu.

Magnús Árnason forstöðumaður í Bláfjöllum segir að í stað þess að velta sleðanum hafi starfsmaðurinn kastað sér af honum og sleðinn þá runnið stjórnlaust niður gilið.

Ekki náðist í vakthafandi lækni nú fyrir stundu en samkvææmt upplýsingum Magnúsar sé hann kominn á almenna deild og sé ekki í lífshættu. Eins og fram kom í fréttum fyrr í dag margbrotnaði hann á vinstri fæti og viðbeinsbrotnaði auk þess sem hann hlaut bólgur í andliti og á hnakka.

Magnús segir að snjósleðar haldi áfram að renna eftir að manneskja fari af þeim, en engin inngjöf sé. Þegar þeim sé beint niður í móti geti þeir haldið áfram að fara ansi hratt. Hann segir þó ómögulegt að segja til um á hversu miklum hraða sleðinn hafi verið þegar hann lenti á drengnum. Strákurinn hafi hins vegar verið á litlum hraða í miðri beygju á leið niður.

Starfsmenn í Bláfjöllum voru afar slegnir eftir slysið, og sérstaklega starfsmaðurinn sem í hlut átti. Magnús segir að hann hafi fengið áfallahjálp.

Vitni voru yfirheyrð af lögreglu þegar hún kom á slysstað og svæðið lokað af á meðan rannsókn stóð yfir.


Tengdar fréttir

Drengur alvarlega slasaður eftir snjósleða í Bláfjöllum

Alvarlegt slys varð á skíðasvæðinu í Bláfjöllum í gærmorgun. Starfsmaður missti stjórn á vélsleða rétt ofan við Kóngslyftu þannig að hann féll af honum. Vélsleðinn rann stjórnlaus niður skíðabrekku og hafnaði á ungum dreng sem varð undir sleðanum. Drengurinn var fluttur alvarlega slasaður á Landsspítalann í Fossvogi. Hann mun vera margbrotinn á vinstri fæti og viðbeinsbrotinn auk þess sem hann hlaut bólgur í andliti og á hnakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×