Innlent

Mannabein fundust í Kjósarhreppi

Hlutar úr hauskúpu fundust á víðavangi í Kjósarhreppi í gærkvöldi. Frumrannsókn á hlutunum leiddi í ljós að beinin eru um tíu til þrjátíu ára gömul. Rannsókn lögreglu er á frumstigi en talið er að beinin séu úr konu eða barni.

Það var um kvöldmatarleitið í gær sem maður gekk fram á beinin og hafði strax samband við lögreglu. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom á staðinn ásamt ljósabíl slökkviliðsins til að rannsaka vettvanginn en engin fleiri bein fundust á staðnum. Læknir sem gerði frumrannsókn á höfuðkúpubrotunum telur að þau séu úr konu eða barni sem hafi látist fyrir um 10-30 árum.

Frá málinu var fyrst greint á fréttavef Kjósarhrepps en umsjónarmaður hans er Sigurbjörn Hjaltason. Hann fór á staðinn í gær og sagði í samtali við fréttastofu í morgun að málið sé allt hið undarlegasta. Enginn kirkjugarður sé í grennd við staðinn þar sem beinin fundust sem lágu á jörðinni. Hann sagði lögregluna hafa farið með beinin til Reykjavíkur til frekari rannsókna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er ekki útilokað að beinin séu úr Saurbæjarkirkjugarði en þar varð landbrot fyrir nokkrum árum og vitað að börn hafi tekið bein úr því. Hins vegar sé ljóst að þar hefur enginn verið jarðsettur síðast liðinn 30 ár og því mikilvægt fyrir framhald rannsóknarinnar að komast að því með vissu hve gömul beinin séu.

Tæknideild lögreglunnar mun rannsaka vettvanginn betur í dag og framhaldinu verður tekin ákvöðrun um hvort málið telst sakamál eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×