Fótbolti

Heimir valdi Manuel Neuer bestan í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer var frábær í marki heimsmeistara Þjóðverja á HM í Brasilíu 2014.
Manuel Neuer var frábær í marki heimsmeistara Þjóðverja á HM í Brasilíu 2014. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins, fékk atkvæðisrétt í kosningunni á besta knattspyrnumanni heims en Heimir var ekki sammála meirihlutanum sem valdi Cristiano Ronaldo besta fótboltamann heims annað árið í röð.

Ísland, fékk eins og aðrar aðildarþjóðir FIFA, þrjú atkvæði í kjörinu. Landsliðsþjálfari, landsliðsfyrirliði og einn blaðamaður frá hverri þjóð fá að kjósa um það hver fær Gullbolta FIFA.

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska fótboltalandsliðsins, fékk að kjósa fyrir hönd þeirra Heimis og Lars Lagerbäck. Heimir valdi þýska markvörðinn Manuel Neuer bestan í heimi og var ekki með Lionel Messi á listanum. Hollendingurinn Arjen Robben varð í öðru sæti hjá Heimi og Cristiano Ronaldo kom síðan í þriðja sætinu.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, kaus Cristiano Ronaldo bestan, Hollendingurinn Arjen Robben var í öðru sæti hjá honum og Lionel Messi kom síðan í þriðja sætinu

Víðir Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, kaus fyrir hönd íslenskra fjölmiðlamanna. Hann var með nákvæmlega sömu röð og í lokastöðu kosningarinnar. Víðir valdi Cristiano Ronaldo bestan, Lionel Messi var í öðru sæti hjá honum og Manuel Neuer kom síðan í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×