Fótbolti

Stjóri Rangers búinn að segja upp

Ally McCoist.
Ally McCoist. vísir/getty
Það er enn bras á skoska knattspyrnuliðinu Rangers sem heldur áfram að reyna að klífa aftur upp í efstu deild.

Nú er þjálfari liðsins, Ally McCoist, búinn að segja upp. Hann er þó ekki hættur heldur kominn á tólf mánaða uppsagnarfrest.

Laun þjálfarans munu þó hækka upp í 146 milljónir fyrir árið sem hann á eftir. Það gæti verið erfitt fyrir Rangers sem varð gjaldþrota á sínum tíma.

Nú þarf stjórn Rangers að taka ákvörðun um framhaldið. Til greina kemur að halda McCoist áfram í starfi út næsta ár, ná samkomulagi um starfslok eða senda hann í frí á launum og ráða annan mann í hans stað.

Rangers er í öðru sæti í skosku B-deildinni. Liðið er níu stigum á eftir Hearts. Annað sætið gefur rétt í umspili um laust sæti í úrvalsdeild.

Félagið er enn í kröggum og þarf að finna 8 milljónir punda í janúar til þess að tryggja reksturinn út næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×