Innlent

Alþingi samþykkir tillögu þar sem kveðið er á um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi í dag.
Þingsályktunartillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi í dag. Vísir/Hanna

Alþingi samþykkti í dag stefnumótandi áætlun samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra í málefnum sveitarfélaga. Henni er meðal annars ætlað að stuðla að sameiningum sveitarfélaga en í áætluninni fellst ákvæði um að lágmarksíbúafjöldi miðist við 1000 íbúa árið 2026.

Nokkrir stjórnarþingmenn, bæði úr röðum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, gerðu grein fyrir atkvæði sínu þar sem þeir lýstu verulegum efasendum um „lögþvingaðar sameiningar,“ sem ákvæðið um lágmarksíbúafjölda er af mörgum sagt fela í sér. Þrír þeirra greiddu ekki atkvæði um tillöguna í heild, þeir Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna og Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Tillagan í heild var samþykkt með 36 atkvæðum gegn 15. Grunnhugmyndin er meðal annars að stuðla að stærðarhagkvæmni sveitarfélaganna og að þau hafi burði til að standa undir þeirri þjónustu sem þeim ber að gera lögum samkvæmt. Tillagan er í ellefu liðum sem almennt ríkir nokkuð breið samstaða um fyrir utan ákvæðið um lágmarksíbúafjölda. Greidd voru atkvæði um þann lið sérstaklega. Breytingatillaga Miðflokksins, um að ákvæðið um lágmarksíbúafjölda yrði fellt brott, var felld með 37 atkvæðum gegn 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×