Erlent

Neyðarástand vegna skógarelda í Króatíu

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í króatísku hafnarborginni Dúbrovik þar sem miklir skógareldar loga nú og ógna úhverfum hennar. Björgunarsveitarmenn bíða nú skipana frá borgarstjóra um að byrja að flytja íbúa á brott frá heimilum sínum í hlíðum umhverfis borgina.

Slökkviliðsmenn reyna nú hvað þeir geta til að ná tökum á eldunum og flugvélar meðal annars notaðar til að hella vatni yfir eldana. Vindasamt er á svæðinu og gerir það slökkviliðsmönnum erfitt fyrir og því breiðast eldarnir hratt út.

Miklir skógareldar, einhverjir þeir verstu í sögunni, hafa logað í Suður-Evrópu í sumar þar sem hvert hitametið hefur verið slegið á fætur öðru. Rúmlega þrjú þúsund ferkílómetrar af skóglendi hafa orðið eldum að bráð í þessum hluta álfunnar það sem af er sumri - meira en allt árið í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×